Körfubolti

Philadelphia og Portland tryggðu sér bæði oddaleik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Damian Lillard vaknaði eftir smá lúr.
Damian Lillard vaknaði eftir smá lúr. vísir/getty
Portland Trail Blazers komst hjá því að fara í sumarfrí í nótt þegar að liðið lagði Denver Nuggets á heimavelli sínum í sjötta leik liðanna í undanúrslitum vesturdeildar NBA með 119 stigum gegn 108.

Staðan í einvíginu er því 3-3 og ráðast úrslitin í oddaleik á hinum gríðarlega öfluga heimavelli Denver-manna en sigurvegarinn fer í úrslit vestursins og mætir þar annað hvort Golden State eða Houston.

Damian Lillard skoraði 32 stig fyrir Portland, þar af 17 í þriðja leikhluta en hann hafði átt erfitt uppdráttar í síðustu tveimur leikjum liðsins í undanúrslitarimmunni.

CJ McCollum lét ekki sitt eftir liggja en hann skoraði 30 stig og Rodney Hood kom sterkur inn af bekknum með 25 stig en alls skoruðu þeir þrír 87 af 119 stigum Portland í leiknum.

Jimmy Butler var aðalmaðurinn þegar að Philadelphia 76ers tryggði sér oddaleik í rimmunni gegn Toronto Raptors í austrinu en þar bíður Milwaukee Bucks eftir mótherja í úrslitarimmu austursins eftir að pakka saman Boston Celtics, 4-1.

76ers vann öruggan sigur á heimavelli í nótt í sjötta leiknum gegn Toronto, 112-101, en staðan þar er 3-3 og ráðast úrslitin í oddaleik í Kanada.

Jimmy Butler skoraði 25 stig, þar af nokkrar mikilvægar körfur á mikilvægum stundum en Ástralinn Ben Simmons lét ekki sitt eftir liggja með 21 stig. Joel Embiid skoraði 17 stig og tók tól fráköst.

Kawhi Leonard hefur skorað nánast að vild í einvíginu og farið yfir 30 stigin í fjórum af fyrstu fimm leikjunum en 76ers náði að halda honum í 29 stigum og tólf fráköstum í nótt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×