Erlent

Tókst að lenda flug­vélinni án fram­hjólanna

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Flugvélin sem lenti án framhjóla.
Flugvélin sem lenti án framhjóla. AP
Flugmaður í Mjanmar náði að lenda flugvél án framhjóla, án þess að nokkur skaði yrði á vélinni eða farþegum innanborðs. Lendingarbúnaður vélarinnar bilað þannig að framhjólin komu ekki niður. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins BBC.

Flugvélin var af tegundinni Embraer 190 og var hluti af flota flugfélagsins Myanmar National. Vélin rann eftir flugbrautinni áður en hún staðnaði, en engum farþeganna 89 varð meint af.

Myat Moe Aung, flugstjóri vélarinnar, flaug vélinni tvo hringi yfir flugvellinum áður en hann fékk leyfi til að lenda, sem gaf flugumferðarstjóra tíma til að áætla hvort lendingarbúnaðurinn væri bilaður.

Vélin var á flugi frá Yangon og var að koma að Mandalay flugvelli þegar flugmaðurinn tók eftir að framhjólin komu ekki niður. Hann fylgdi öllum reglum um úrræði í neyðarástandi og brenndi olíu vélarinnar til að létta hana.

Myndband af lendingunni sýndi vélina lenda á afturhjólunum áður en nef hennar lagðist niður á flugbrautina. Vélin rann í um 25 sekúndur áður en hún stoppaði.

Þetta er annað flugslysið í vikunni í Mjanmar. Á miðvikudag lenti vél Biman Bangladesh Airlines á flugbraut í vondu veðri og rann af flugbrautinni, en 17 farþegar vélarinnar slösuðust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×