Lífið

Ísland verður í seinni hlutanum á laugardag

Andri Eysteinsson skrifar
Klemens dró seinni helminginn upp úr myndalegri skál, eða fiskabúri.
Klemens dró seinni helminginn upp úr myndalegri skál, eða fiskabúri.
Ísland verður í seinni hluta úrslitakvölds Eurovision næstkomandi laugardag. Þetta kom í ljós við upphaf blaðamannafundar sem haldin var eftir að úrslit fyrsta undanriðils Eurovision 2019 voru kunngjörð.

Söngvari Hatara, Klemens Hannigan, var látinn draga fyrir Íslands hönd en gat sagt frá því hvar í röðinni Hatari gerði ráð fyrir að spila í áætlunum sínum.

Keppendur voru á blaðamannafundinum látnir draga um hvort atriði þeirra yrðu í fyrri eða seinni hluta keppninnar, auk Íslands verða Hvít-Rússar, Serbar, Eistar og Ástralir.

Í fyrri hluta keppninnar verða Grikkir, Kýpverjar, Tékkar, San Marínómenn og Slóvenar.

Keppendur voru spurðir að því hver væri draumaröðun þeirra á laugardaginn og kvað Klemens spurninguna vera svo erfiða að hann þyrfti umhugsunarfrest og gæfi mögulega svar á morgun.

Sjö af tíu síðustu sigurvegurum voru í seinni hluta keppninnar

Í sjö af síðustu tíu Eurovision keppnum hefur sigurlagið verið í seinni hluta keppninnar.

Árið 2009 var Alexander Rybak 20. á sviðið með lagið Fairytale, 2010 var Lena 22. á svið með lagið Satellite. Ári síðar voru Ell og Nikki nítjándu í röðinni með lagið Running Scared. Loreen var sautjánda á svið í Aserbaijan ári síðar.

2013 var hin danska Emmelie de Forest átjánda í röðinni með sigurlagið Only Teardrops, 2014 var Conchita Wurst hinsvegar í fyrri hlutanum með lagið Rise like a Phoenix, Chonchita var ellefta í röðinni. Måns Zelmerlow lék það eftir í Vín ári síðar en hann fór tíundi á svið með lagið Heroes.

Hin úkraínska Jamala var nr 21 á svið árið 2016 með lagið eftirminnilega 1944. Salvador Sobral var ellefti á svið 2017 og í fyrra var Netta fimmta síðust á svið.

Sagan gæti því verið með Hatara og aldrei að vita hvað gerist í Tel Aviv, næstkomandi Laugardagskvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×