Sport

Barist í kvöld um tvö síðustu sætin í úrslitakeppninni í pílu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gerwyn Price þarf að vinna í kvöld og treysta á úrslit í öðrum leikjum.
Gerwyn Price þarf að vinna í kvöld og treysta á úrslit í öðrum leikjum. Getty/Dean Mouhtaropoulos
Lokaumferð deildarkeppni úrvalsdeildarinnar í pílu fer fram í kvöld í Leeds og er að sjálfsögðu sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Eftir fimmtán umferðir ræðst það endanlega á þessu sextánda kvöldi tímabilsins hvaða fjórir pílarar keppa um úrvalsdeildartitilinn í ár. Þarna eru samankomnir þeir bestu í heimi. Útsending á Stöð 2 Sport 2 hefst klukkan 18.00 í kvöld.





Fjórir efstu pílararnir komast í úrslitakeppnina og tvö sæti eru þegar skipuð. Englendingurinn Rob Cross og Hollendingurinn Michael van Gerwen voru fyrstir til að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni. Rob Cross var sá fyrsti en hann er efstur í deildinni með 22 stig.

Deildarkeppnin hefur líklega aldrei verið eins jöfn og spennandi í fimmtán ára sögu úrvalsdeildarinnar en fjórir eiga enn möguleika á að tryggja sig inn í úrslitakeppnina með sigri í kvöld. Þetta eru þeir James Wade, Mensur Suljovic, Daryl Gurney og Gerwyn Price.

Tveir af átta eru þegar úr leik en það eru Michael Smith og Peter Wright. Raymond van Barneveld datt síðan úr keppni eftir níu umferðir.





„Í upphafi keppninnar hefði ég alltaf þegið það að vera í þessari stöðu en ef þú hefðir spurt mig fyrir fimm til sex vikum þá hefði ég verið ósáttur með að missa þetta út úr mínum höndum,“ sagði Gerwyn Price. Hann er í sjötta sæti og stigi frá fjórða sætinu eftir jafntefli við Daryl Gurney í  Sheffield í síðustu viku.

„Leikurinn í síðustu viku skipti miklu máli fyrir mig. Ég vissi að ég þyrfti að vinna eða ná að minnsta kosti jafntefli og ég átti að vinna hann. Það féll ekki með mér og ég þarf bara að halda áfram,“ sagði Gerwyn Price.

„Ef ég kemst ekki áfram þá hefur þetta samt verið frábært ár fyrir mig í úrvalsdeildinni en ég er bara búin að gefa of mörg jafntefli,“ sagði Price en jafntefli hans fyrir viku síðan var hans sjötta í fimmtán leikjum.





Norður Írinn Daryl Gurney viðurkennir að hann hafi verið heppnina með sér í leiknum á móti Price í síðustu viku. „Þetta var stærsti leikurinn minn á tímabilinu. Hann var mun betri en ég og hefði líklega átt skilið að vinna. Ég gerði vel í að ná í jafntefli,“ sagði Gurney.

„Þetta verður mjög áhugavert í kvöld. Þetta verður erfiður leikur fyrir mig á móti Michael Smith sen er sofandi risi eins og er. Hann er líklega með mestu náttúrulegu hæfileikana af öllum á mótaröðinni,“ sagði Daryl Gurney.

Gerwyn Price mætir Peter Wright í kvöld en hann þarf sigur og svo að treysta á það að Mensur Suljovic eða Daryl Gurney vinni ekki sína leiki. Suljovic mætir Michael van Gerwen en Gurney spilar við Michael Smith.





Leikir kvöldsins:

Gerwyn Price - Peter Wright

Daryl Gurney - Michael Smith

Michael van Gerwen - Mensur Suljovic

James Wade - Rob Cross

Staðan fyrir lokaumferðina:

1. Rob Cross 22 stig

2. Michael van Gerwen 21 stig

3. James Wade 18 stig

4. Mensur Suljović 17 stig

5. Daryl Gurney 17 stig

6. Gerwyn Price 16 stig

7. Michael Smith 10 stig

8. Peter Wright 9 stig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×