Innlent

Vann 40 milljónir og nýtur nú lífsins áhyggjulaus á Ítalíu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Andri Hrannar Einarsson í hljóðveri FM Trölla. Hann er nú fluttur til Ítalíu og býr þar með kærustu sinni, Fransescu.
Andri Hrannar Einarsson í hljóðveri FM Trölla. Hann er nú fluttur til Ítalíu og býr þar með kærustu sinni, Fransescu. Mynd/Trölli.is

Andri Hrannar Einarsson, siglfirðingur og þáttastjórnandi á útvarpsstöðinni FM Trölla, vann 40 milljónir í Lottó í apríl síðastliðnum. Andri greinir frá vinningnum í samtali við vefinn Trölla.is og segir hann hafa gjörbreytt lífi sínu.

Andri lýsir því þar að hann hafi keypt vinningsmiðann á bensínstöð Olís á Siglufirði áður en hann steig á svið með Leikfélagi Fjallabyggðar þá um kvöldið, laugardaginn 12. apríl. Hann áttaði sig ekki á því að stóri vinningurinn hafi fallið í hans hlut fyrr en hann las fréttir um útdráttinn daginn eftir.

„Ég er búinn að vera í ótrúlega miklum fjárhagsvandræðum svo lengi og hef átt erfitt með að ná endum saman og þetta hefur haft mikil áhrif á mína andlegu líðan. Þvílíkt sem þetta mun breyta mínu lífi,“ segir Andri í samtali við Trölla.

Nú geti hann notið lífsins með kærustu sinni, Fransescu, á Ítalíu án þess að hafa áhyggjur af fjárhagnum.

„Það má segja að síðastliðinn apríl hafi verið nokkuð stór í mínu lífi þar sem ég varð 50 ára þann fyrsta apríl og þrettánda apríl fæ ég lottóvinning. Ég er ennþá að meðtaka þetta allt en ég er hamingjusamur og ánægður með lífið, loksins loksins loksins datt lukkan mér í hag.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.