Erlent

Hvíta­birni flogið 700 kíló­metra leið heim í þyrlu

Atli Ísleifsson skrifar
Hvítabjörninn var svæfður og svo komið fyrir í þyrlunni.
Hvítabjörninn var svæfður og svo komið fyrir í þyrlunni. AP
Hvítabjörn, sem hafði villst og fundið sér leið að þorpi á Kamtsjakaskaga í austurhluta Rússlands, var flogið nærri 700 kílómetra leið í þyrlu til heimkynna sinna í rússnesku óbyggðunum.

Íbúar á Kamtsjaka urðu varir við björninn í síðustu viku og varð þeim ljóst að hann var uppgefinn eftir að hafa farið mörg hundruð kílómetra leið í leit að fæðu. Var talið að hann hafði þá komið frá Tsjúkotka, norðar í Rússlandi í um 700 kílómetra fjarlægð, að því er fram kemur í frétt AP.

Fulltrúar rússneskra yfirvalda svæfðu dýrið og var því svo komið fyrir í þyrlu og flogið á brott. Íbúar sögðu björninn ekki hafa verið sérstaklega árásargjarnan og að hann hafi étið fisk sem þeir höfðu boðið honum.

Að neðan má sjá myndskeið AP af björgunaraðgerðunum.

Sökum hlýnunar loftslags og bráðnunar íss berast reglulega fréttir af því að hvítabirnir leiti til byggða í leit að fæðu.

Í febrúar síðastliðinn var lýst yfir neyðarástandi á rússnesku eyjunni Novaja Semlja eftir að um fimmtíu birnir gengu um götur þorps.


Tengdar fréttir

Lýsa yfir neyðarástandi vegna ísbjarna

Yfirvöld á rússneska eyjaklasanum Novaja Semlja í Norður-Íshafi hafa lýst yfir neyðarástandi vegna tíðra árása ísbjarna á íbúa svæðisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×