Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Stjarnan 30-23 | Stjarnan engin fyrirstaða í oddaleiknum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
vísir/bára
Haukar mæta ÍBV í undanúrslitum Olísdeildar karla eftir stórsigur á Stjörnunni í oddaleik í Schenkerhöllinni að Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld. Stjarnan vann með sjö mörkum eftir að hafa verið 17-9 yfir í hálfleik.

Það gekk illa hjá báðum liðum að koma boltanum í netið í upphafi en Daníel Þór Ingason gerði fyrsta mark leiksins á þriðju mínútu. Staðan var 2-1 á fjórðu mínútu en þá skoruðu Haukar næstu fjögur mörk leiksins og komu sér í þægilega forystu.

Stjarnan var að gera mikið af klaufalegum mistökum í sóknum sínum á meðan Haukar nýttu sínar mun betur og þannig byggðu heimamenn sér hægt og rólega upp stærri forystu. Gestirnir voru aldrei líklegir til þess að gera áhlaup í fyrri hálfleik og undir lok hálfleiksins skoruðu Haukar fjögur mörk í röð og leiddu 17-9 þegar farið var til búningsherbergja.

Rauðklæddir heimamenn áttu fyrstu þrjú mörk seinni hálfleiks, munurinn orðinn ellefu mörk og leikurinn í raun úti. Stjörnumenn pökkuðu ekki saman og gáfust upp, en þeir hefðu þurft stórbrotna frammistöðu til þess að vinna upp muninn. Hún kom ekki og leikurinn fjaraði hægt og rólega út. Þegar upp var staðið unnu Haukar 30-23 sigur.

Af hverju unnu Haukar?

Sterk byrjun gerði þeim auðvelt fyrir. Haukar eru búnir að spila betur en Stjarnan í vetur og eru með aðeins fleiri stór nöfn í sínu liði. Það var ljóst að Stjarnan þyrfti að hitta á mjög góðan dag til þess að vinna Haukana og það gerðu þeir ekki.

Þar sem bláklæddir gestirnir náðu ekki að koma til baka í fyrri hálfleik var munurinn einfaldlega orðinn of mikill.

Hverjir stóðu upp úr?

Þetta var rosaleg liðsframmistaða hjá Haukum. Það komust tíu leikmenn á blað hjá þeim og markaskorun dreifðist jafnt en Orri Freyr Þorkelsson var þó markahæstur með sex mörk. Það áttu allir sem á annað borð spiluðu eitthvað af ráði mjög fínan leik í liði Hauka.

Hjá Stjörnunni var Aron Dagur Pálsson yfirburðarmaður í sóknarleiknum. Hann var með sjö mörk og lengi vel var hann með um helming marka Stjörnunnar. Undir lokin steig Andri Hjartar Grétarsson upp og náði í nokkur mörk.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Stjörnunnar. Mikið af töpuðum boltum og lélegum skotum, sérstaklega framan af. Rúnar byrjaði leikinn á að spila sjö á sex og en virkaði ekki sem skyldi og fengu Haukar tvö mjög ódýr mörk snemma leiks þar sem enginn var í marki.

Hvað gerist næst?

Stjarnan er komin í sumarfrí. Haukar mæta ÍBV í undanúrslitunum, undanúrslitin hefjast í lok mánaðarins.

Gunnar: Ánægður með hvernig drengirnir svöruðu kallinu

„Liðsheildin skilaði þessu. Varnarleikurinn, hraðaupphlaupin, sóknarleikurinn, allir klárir og hugarfarið rétt. Ánægður með drengina hvernig þeir svöruðu kallinu, mættu klárir og við tókum frumkvæðið strax, slökuðum aldrei á,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í leikslok.

„Ótrúlega stoltur af strákunum og er ánægður með allan pakkann.“

Haukar fengu ákveðinn skell í síðasta leik en náðu að hrista hann af sér og mæta af krafti inn í þennan leik.

„Auðvitað var síðasti leikur mikil vonbrigði og þetta er kúnst. Þú vinnur fyrsta leikinn stórt og þá fer það inn í undirmeðvitundina hjá leikmönnum, eitthvað vanmat, sama hvað maður reynir að vara þá við, og ég reyndi mjög mikið.“

Haukar mæta ÍBV í undanúrslitunum, er Gunnar farinn að hugsa út í það hvernig hann sigri þá?

„Nei, en það er bara mjög skemmtilegt. Þeir eru með frábært lið og ég held þetta sé þriðja, fjórða skiptið á fimm, sex árum sem þessi lið mætast í úrslitakeppninni svo við erum vanir að mæta þeim.“

„Þetta eru alltaf svakalegar rimmur og sem betur fer erum við nýbúnir að mæta þeim og vitum hversu sterkt lið þeir eru.“

Rúnar: Vorum á svo mörgum stöðum ekki nógu góðir

„Þeir voru miklu ákveðnari og grimmari heldur en við. Þeir voru betur undirbúnir heldur en við greinilega og maður tekur þetta á sig,“ sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar.

„Það var klárt mál að við vildum vera á tánum og veita þeim mótspyrnu en það náðist engan vegin í dag. Við komum eitthvað smá til baka en þeir voru bara miklu betra liðið í dag.“

Eftir að hafa verið eina liðið sem náði í oddaleik, þegar flestir afskrifuðu liðið strax fyrir fram, getur Stjarnan gengið frá þessu einvígi með höfuðið mátulega hátt á lofti?

„Nei, við vildum vinna. Við vorum bara á svo mörgum stöðum ekki nógu góðir í dag.“

Stjarnan er nú þegar byrjuð að safna liði fyrir næsta vetur, er stefnan sett hærra þá?

„Jájá. Það voru nítján ár síðan við unnum síðast leik í úrslitakeppninni og það gerðist, nú þarf bara að taka næsta skref. Þetta gerist kannski ekki á einni nóttu en mikilvæg reynsla fyrir yngri strákana.“

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira