Fótbolti

Neymar dæmdur í þriggja leikja bann fyrir að móðga dómara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neymar fylgdist með leik Paris Saint-Germain og Manchester United úr stúkunni á Parc des Princes.
Neymar fylgdist með leik Paris Saint-Germain og Manchester United úr stúkunni á Parc des Princes. vísir/getty
Knattspyrnusamband Evrópu hefur dæmt Neymar, leikmann Paris Saint-Germain, í þriggja Evrópuleikja bann fyrir ummæli sín um dómara á Instagram eftir leik PSG og Manchester United í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í febrúar.

United komst áfram þökk sé marki Marcus Rashford úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Damir Skomina dæmdi víti eftir að hafa skoðað atvikið, þegar Presnel Kimpembe fékk boltann í höndina, á myndbandi. Neymar, sem missti af leiknum vegna meiðsla, var æfur eftir og blótaði myndbandsdómgæslunni í sand og ösku á Instagram í leikslok.

Brasilíumaðurinn hefði betur látið það ógert því UEFA er búið að dæma hann í þriggja leikja bann. Neymar missir því af helmingi leikja PSG í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á næsta tímabili.

Neymar sneri aftur í lið PSG í 3-1 sigri á Monaco um síðustu helgi. Það var fyrsti leikur hans síðan 23. janúar en hann var frá keppni í þrjá mánuði vegna meiðsla.

PSG varð franskur meistari annað árið í röð um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×