Fótbolti

„Messi vissi að þetta var slys“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi liggur í grasinu en Chris Smalling  er lengst til hægri.
Lionel Messi liggur í grasinu en Chris Smalling er lengst til hægri. AP/Jon Super

Manchester United leikmaðurinn Chris Smalling var mikið í umræðunni eftir fyrri leik Manchester United og Barcelona í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fótbolta.

Chris Smalling tókst nefnilega að blóðga Lionel Messi og nánast með því slökkva á argentínska snillingnum sem átti erfitt með andardrátt í kjölfarið. Atvikið gerðist í fyrri hálfleik og það var mjög lítið að frétta af Messi eftir það.

Sumir grínuðust með það að Chris Smalling hafi hreinlega sannað með þessu að Messi væri mannlegur. Við fengum að sjá að Messi væri manneskja af holdi og blóði.

Chris Smalling talaði um atvikið með Lionel Messi í viðtali við breska ríkisútvarpið.„Við töluðum saman eftir þetta. Þetta var stutt spjall og svo tókumst við í hendur,“ sagði Chris Smalling í viðtali hjá BBC Radio 5 Live.

„Messi vissi að þetta var slys,“ sagði Smalling. Staðan var þarna 1-0 og hafði Lionel Messi lagt upp eina markið sem var þó á endanum tekið af Luis Suarez og skráð sem sjálfsmark. Barcelona skoraði ekki fleiri mörk í leiknum og aðeins eins marks tap þýðir að Manchester United á enn smá von um að komast í undanúrslitin.

„Ég áttaði mig ekki á því strax að ég hafði farið svona í hann. Suarez kom líka til mín eftir leikinn en við vorum líka að berjast mikið um boltann allan leikinn. Hann tók í höndina á mér og óskaði mér góðs gengis,“ sagði Smalling.„Það er gaman af því að þú getur barist inn á vellinum en svo er bara virðing á milli allra aðila eftir leik. Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru allir bara að reyna sitt besta,“ sagði Smalling.

„Ég veit að við getum klárað þetta í seinni leiknum. Ef við byggjum ofan á frammistöðuna í seinni hálfleik, þegar við komum af mun meiri ákefð inn í leikinn og gerðum þeim aðeins lífið leitt, þá er allt hægt,“ sagði Smalling.

„Við urðum þó aðeins að passa okkur í seinni hálfleiknum því það var annar leikur. Við verðum núna að tryggja það að við sjáum ekki eftir neinu eftir seinni leikinn og gefa allt okkar í þennan leik í Barcelona,“ sagði Smalling.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.