Fótbolti

„Ég trúi því ekki hversu feitur Suarez er“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez í leiknum á Old Trafford á miðvikudagskvöldið.
Luis Suarez í leiknum á Old Trafford á miðvikudagskvöldið. Getty/Robbie Jay Barratt
Luis Suarez átti mikinn þátt í sigurmarki Barcelona á móti Manchester United í Meistaradeildinni á miðvikudagskvöldið en sumir knattspyrnusérfræðingar hafa áhyggjur af vaxtarlagi Úrgvæmannsins sem ætti að vera einn að lykilmönnunum ætli Barcelona að vinna Meistaradeildina í ár.

Luis Suarez vann Meistaradeildina á sínu fyrsta tímabili með Barcelona, 2014-15, en félagið hefur ekki unnið hana síðan. Suarez fékk ekki markið á Old Trafford skráð á sig og hefur því enn ekki skorað í Meistaradeildinni á þessu tímabili. 7 leikir og ekkert mark og hann skoraði aðeins eitt mark í tíu leikjum í Meistaradeildinni í fyrra þar sem Barcelona datt út á móti Roma í átta liða úrslitunum.

Luis Suarez er aftur á móti með 23 mörk í 35 leikjum í deild og bikar á Spáni þar sem Barcelona á möguleika að vinna tvöfalt.





Einn af þeim sem fór hvað lengst í að gagnrýna líkamlegt ástand Luis Suarez var franski blaðamaðurinn Julien Laurens. Julien skrifar fyrir Le Parisien en er vinsæll gestur í þáttum BT Sport Talksport og ESPN þar sem hann hefur aðsetur í London.

„Hversu mörgum kílóum hefur hann bætt á sig? Þetta er ótrúlegt,“ byrjaði Julien Laurens í þættinum Football Daily á BBC Radio 5 Live.

„Ég hafði ekki áttað mig á þessu þegar ég horfði á leikina hans í sjónvarpinu. Þetta var í fyrsta sinn sem ég sá hann á staðnum. Ég trúi því ekki hversu feitur Suarez er. Ég skil bara ekki hvernig félag getur leyft leikmanni að fitna svona,“ sagði Laurens.

Spænski blaðamaðurinn Guillem Balague kom þá Luis Suarez aðeins til varnar.

„Þetta eru bara sterkir vöðvar. Ég var með honum fyrir einum og hálfum mánuði síðan og tók við hann viðtal. Í návígi þá er hann ekki svona stór. Hann lítur bara út fyrir að hafa bætt við sig vöðvum,“ sagði Guillem Balague.

„Hann er að glíma við hnémeiðsli svo hann þarf að styrkja vöðvana í kringum hnéð. Hann leit út fyrir að vera sterkur maður en ekki feitur maður. Hann er samt að berjast við vigtina á hverju tímabili,“ sagði Balague.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×