Fótbolti

Solskjær mun ekki minnast á stærstu stund fótboltaferilsins

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ole Gunnar Solskjær fagnar fræknasta marki ferilsins.
Ole Gunnar Solskjær fagnar fræknasta marki ferilsins. vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, mun ekki nota stærstu stund sína sem fótboltamaður til þess að hvetja núverandi lærisveina sína til dáða í liðsræðum fyrir stórleikinn gegn Barcelona á Nývangi annað kvöld.

United er 1-0 undir í einvíginu í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar eftir tap á heimavelli en United sneri 2-0 tapi á heimavelli við í síðustu umferð á móti Paris Saint-Germain og vann 3-1 í París.

Solskjær er auðvitað þekktastur fyrir markið sem að hann skoraði í uppbótartíma á móti Bayern München í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 1999 en United skoraði tvö í uppbótartíma og tryggði sér sigur í Meistaradeildinni.

„Nei, ég mun ekki minnast á sigurinn 1999 því hann var á móti Bayern München, það var úrslitaleikur og það var bara öðruvísi,“ segir Solskjær.

„Við munum styðjast við leikinn á móti PSG og fræga sigurinn á móti Juventus á útivelli 1999 eins og síðast. Við höfum unnið góð lið á útivelli á þessari leiktíð og spilað á móti frábærum leikmönnum.“

„Barcelona var í vandræðum með okkur nokkrum sinnum í leiknum þrátt fyrir að hafa stýrt honum undir restina. Börsungar voru meira með boltann en þeir ógnuðu okkur aldrei í seinni hálfleik,“ segir Ole Gunnar Solskjær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×