Fótbolti

Man. United þarf annað kraftaverk á Nývangi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Þessi þekkir kraftaverkin á Nývangi.
Þessi þekkir kraftaverkin á Nývangi. vísir/getty

Manchester United þarf að sækja til sigurs á Nývangi gegn Barcelona í kvöld á sama tíma og Ajax reynir að slá út Juventus í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Barcelona tekur naumt 1-0 forskot inn í leikinn á Spáni en staðan er jöfn á Ítalíu eftir 1-1 jafntefli í fyrri leik liðanna í Amsterdam.

Það voru ekki margir sem höfðu trú á að Manchester United myndi komast áfram í 16-liða úrslitunum eftir að hafa líkt og nú tapað heimaleiknum gegn ógnarsterkum mótherjum.

Lykilatriðið í kvöld fyrir gestina frá Man­chester verður að stöðva Lionel Messi. Messi náði sér ekki á strik í fyrri leik liðanna og virtist samstuð við Chris Smalling taka loftið úr Messi en sá argentínski fékk hvíld um helgina og mætir í hefndarhug í kvöld. Sagan er Börsungum hliðholl sem hafa ekki tapað heimaleik í Evrópukeppnum í sex ár.

Ole Gunnar Solskjær getur minnt leikmenn sína á að allt sé mögulegt og vitnað í eigin afrek árið 1999 á Nývangi þegar Solskjaer skrifaði nafn sitt í sögubækurnar með sigurmarkinu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Í seinni leiknum skyldi ekki afskrifa Ajax eftir 4-1 sigur Ajax á Real Madrid á útivelli fyrr í vetur.

Hins vegar er Juventus sigurstranglegri aðilinn. Ítalska félagið er með sterkara lið á pappírunum og nýtur góðs af því að hafa náð að hvíla stærstu stjörnur liðsins um helgina.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.