Fótbolti

Man. United þarf annað kraftaverk á Nývangi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Þessi þekkir kraftaverkin á Nývangi.
Þessi þekkir kraftaverkin á Nývangi. vísir/getty
Manchester United þarf að sækja til sigurs á Nývangi gegn Barcelona í kvöld á sama tíma og Ajax reynir að slá út Juventus í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Barcelona tekur naumt 1-0 forskot inn í leikinn á Spáni en staðan er jöfn á Ítalíu eftir 1-1 jafntefli í fyrri leik liðanna í Amsterdam.

Það voru ekki margir sem höfðu trú á að Manchester United myndi komast áfram í 16-liða úrslitunum eftir að hafa líkt og nú tapað heimaleiknum gegn ógnarsterkum mótherjum.

Lykilatriðið í kvöld fyrir gestina frá Man­chester verður að stöðva Lionel Messi. Messi náði sér ekki á strik í fyrri leik liðanna og virtist samstuð við Chris Smalling taka loftið úr Messi en sá argentínski fékk hvíld um helgina og mætir í hefndarhug í kvöld. Sagan er Börsungum hliðholl sem hafa ekki tapað heimaleik í Evrópukeppnum í sex ár.

Ole Gunnar Solskjær getur minnt leikmenn sína á að allt sé mögulegt og vitnað í eigin afrek árið 1999 á Nývangi þegar Solskjaer skrifaði nafn sitt í sögubækurnar með sigurmarkinu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Í seinni leiknum skyldi ekki afskrifa Ajax eftir 4-1 sigur Ajax á Real Madrid á útivelli fyrr í vetur.

Hins vegar er Juventus sigurstranglegri aðilinn. Ítalska félagið er með sterkara lið á pappírunum og nýtur góðs af því að hafa náð að hvíla stærstu stjörnur liðsins um helgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×