Umfjöllun og viðtöl: Valur - Afturelding 28-25 │Endurkomusigur Valsmanna í framlengdum leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Róbert Aron var markahæstur Valsmanna með átta mörk.
Róbert Aron var markahæstur Valsmanna með átta mörk. vísir/bára
Valur tók forystuna í einvíginu gegn Aftureldingu í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla með sigri, 28-25, eftir framlengingu í fyrsta leik liðanna í kvöld.

Mosfellingar voru í kjörstöðu til að landa sigrinum en þeir voru með boltann og marki yfir, 22-21, þegar 13 sekúndur voru til leiksloka.

Þeir töpuðu boltanum hins vegar klaufalega og Anton Rúnarsson jafnaði úr hraðaupphlaupi, 22-22, og tryggði Valsmönnum framlengingu.

Valur var marki yfir, 26-25, eftir fyrri hálfleik framlengingarinnar. Finnur Ingi Stefánsson fékk tækifæri til að jafna í seinni hálfleik framlengingarinnar en Einar Baldvin Baldvinsson varði vítakast hans.

Í næstu sókn kom Róbert Aron Hostert Val tveimur mörkum yfir, 27-25, þegar hann skoraði sitt áttunda mark. Valsmenn bættu svo einu marki við áður en yfir lauk og unnu þriggja marka sigur, 28-25.

Daníel Freyr Andrésson var frábær í marki Vals og varði 21 skot, eða 47% þeirra skota sem hann fékk á sig. Pálmar Pétursson, markvörður Aftureldingar, varði vel í fyrri hálfleik en datt aðeins niður í þeim seinni.

Afturelding var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddi með fjórum mörkum, 10-14, að honum loknum.

Valsmenn spiluðu stórkostlega vörn í upphafi seinni hálfleiks og Mosfellingar komust ekkert áleiðis. Gestirnir skoruðu aðeins tvö mörk á fyrstu 18 mínútum seinni hálfleiks. Til allrar hamingju fyrir þá komust Valsmenn aldrei meira en einu marki yfir á þessum kafla.

Afturelding fann ágætis lausnir á vörn Vals á lokamínútum seinni hálfleiks og þegar mínúta var eftir kom Finnur Ingi gestunum yfir, 21-22.

Róbert Aron tapaði svo boltanum og Afturelding var því með pálmann í höndunum. Mosfellingar gerðu sig hins vegar seka um afdrifarík mistök undir lokin og Valsmenn nýttu sér það, jöfnuðu og unnu svo framlenginguna, 6-3.

Daníel Freyr var besti maður vallarins í kvöld.vísir/bára
Af hverju vann Valur?

Valsvörnin var ekki lík sjálfri sér í fyrri hálfleik en það breyttist eftir hlé. Þá hrökk hún heldur betur í gang og Mosfellingum voru allar bjargir bannaðar í sókninni.

Finnur Ingi reyndist hins vegar miklu betri en enginn og skoraði fimm af síðustu sex mörkum Aftureldingar í venjulegum leiktíma. Þeir Elvar Ásgeirsson skoruðu samtals 19 af 25 mörkum Aftureldingar í leiknum og það vantaði sárlega framlag frá fleiri leikmönnum.

Róbert Aron dró Valsvagninn lengst af en heimamenn fengu framlag úr ýmsum áttum. Einar Baldvin varði víti eins og áður sagði, Þorgils Jón Svölu Baldursson skoraði mikilvægt mark í framlengingunni og það sama gerði 2002-módelið Benedikt Gunnar Óskarsson í fyrri hálfleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Daníel var frábær í Valsmarkinu allan leikinn og átti hvað stærstan þátt í sigri heimamanna. Róbert Aron skoraði átta mörk úr aðeins tólf skotum og fiskaði fullt af brottvísunum á leikmenn Aftureldingar.

Alexander Örn Júlíusson var að venju sterkur í vörninni og skoraði mikilvæg mörk í seinni hálfleiknum, eitthvað sem hann þarf að gera í fjarveru Magnúsar Óla Magnússonar og Agnars Smára Jónssonar. Landsliðsmaðurinn Ýmir Örn Gíslason átti einnig góðan leik hjá Val; skoraði þrjú mörk úr þremur skotum og batt vörnina saman.

Finnur Ingi skoraði ellefu mörk á sínum gamla heimavelli og það var ekki síst honum að þakka að Afturelding komst í þá stöðu að geta unnið leikinn. Elvar var góður í fyrri hálfleik en datt of mikið niður eftir hlé.

Hvað gekk illa?

Valsmenn voru ekki upp á sitt besta í fyrri hálfleik. Róbert Aron byrjaði reyndar af miklum krafti og skoraði þrjú af fyrstu fjórum mörkum Vals en svo varð sókn liðsins full einhæf.

Í fyrri hálfleik var sóknarleikur gestanna úr Mosfellsbænum afar vel útfærður. Elvar fór mikinn og var kominn með sex mörk í hálfleik. Valsmenn lokuðu hins vegar á hann í seinni hálfleiknum og framlengingunni og hann skoraði aðeins tvö mörk á síðustu 40 mínútum leiksins.

Birkir Benediktsson var fínn í fyrri hálfleik en gaf eftir í þeim seinni enda ekki í mikilli leikæfingu. Og eins og svo oft áður í vetur var línuspil Aftureldingar heldur fátæklegt.

Hornamenn Vals áttu erfitt uppdráttar í dag og skoruðu aðeins fjögur mörk úr ellefu skotum. Það kom þó ekki að sök.

Hvað gerist næst?

Annar leikur liðanna fer fram í Mosfellsbænum á mánudaginn. Vinni Valur er liðið komið í undanúrslit. Vinni Afturelding mætast liðin í oddaleik á Hlíðarenda á miðvikudaginn.

Snorri Steinn fylgdist með Jónasi Elíassyni gefa Orra Frey Gíslasyni, fyrirliða Vals, rauða spjaldið.vísir/bára
Snorri Steinn: Danni er í landsliðsklassa

Snorri Steinn Guðjónsson, annar þjálfara Vals, var stoltur af sínu liði eftir sigurinn á Aftureldingu á Hlíðarenda í kvöld.

„Ég er bara ánægður en þarf að fá nokkrar mínútur til að melta þetta og átta mig á þessu. Þetta er risasigur fyrir okkur. Við vorum komnir í erfiða stöðu en kreistum fram framlengingu,“ sagði Snorri Steinn eftir leik.

„Við sýndum karakter en ég þarf kannski að finna aðeins sterkara lýsingarorð. Þetta var frábært hjá drengjunum. Við vorum í basli í sókninni þar sem mæðir mikið á fáum mönnum. En við misstum aldrei móðinn og héldum alltaf áfram. Seinni hálfleikurinn var frábær hjá okkur. Við misstum tvo menn út af en aukaleikararnir komu með risa framlag.“

Valur var fjórum mörkum undir í hálfleik, 10-14. Eftir hlé skelltu heimamenn í lás í vörninni og gestirnir skoruðu aðeins tvö mörk á fyrstu 18 mínútum seinni hálfleiks.

„Við áttum í vandræðum með eitt leikkerfi hjá þeim í fyrri hálfleik og fengum of mörg auðveld mörk á okkur. Að öðru leyti fannst mér vörnin ekkert hræðileg en hún átti eitthvað inni. Við gerðum of mörg mistök í fyrri hálfleik og buðum þeim upp á auðveld mörk og það fór mest í taugarnar á mér. Mér fannst fjögur mörk vera of mikill munur í hálfleik,“ sagði Snorri Steinn.

Hann var að vonum ánægður með Daníel Frey Andrésson sem varði 21 skot í marki Vals.

„Danni er frábær enda í landsliðsklassa,“ sagði Snorri Steinn að lokum.

Einar Andri og félagar þurfa að vinna þegar Valsmenn koma í Mosfellsbæinn á mánudaginn til að knýja fram oddaleik.vísir/bára
Einar Andri: Mætum fílefldir í næsta leik

„Ég er svekktur að tapa. Við spiluðum mjög vel, lögðum allt í þetta og vorum óheppnir að klára þetta ekki í venjulegum tíma,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir tapið á Hlíðarenda í kvöld.

Mosfellingar voru í kjörstöðu undir lokin, yfir og með boltann. En þá dundi ógæfan yfir.

„Þá klikkaði sending. Það er það eina sem ég get sagt,“ sagði Einar Andri. Valsmenn nýttu sér mistök Mosfellinga, jöfnuðu og tryggðu sér framlengingu sem þeir unnu, 6-3.

Afturelding spilaði mjög vel í fyrri hálfleik en hljóp á varnarvegg Vals í þeim seinni.

„Við sköpuðum okkur ágætis færi en það vantaði kraftinn sem var í okkur í fyrri hálfleik. Það kom smá hik í okkur. Síðan var Daníel [Freyr Andrésson, markvörður Vals] erfiður,“ sagði Einar Andri.

„Við komum okkur svo aftur inn í leikinn og náðum frumkvæðinu. Það var mjög gott hjá okkur að komast yfir undir lokin en svekkjandi að ná ekki að klára leikinn. Ein klipping klikkaði og það getur gerst. Það var fullt af svoleiðis atvikum í leiknum.“

Afturelding fær tækifæri til að knýja fram oddaleik þegar Valur kemur í heimsókn í Mosfellsbæinn á mánudaginn.

„Ég þarf að skoða þennan leik. Við þurfum að spila af sama krafti og í kvöld, lögum það sem við getum lagað og mæta fílefldir í næsta leik,“ sagði Einar Andri að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira