Skoðun

Hvað ef Georg Bjarnfreðarson sækir um?

Baldvin Björgvinsson skrifar
Eins og alþjóð veit er Georg Bjarnfreðarson með fimm háskólagráður. Hann er meðal annars með gráðu í félagsfræði og sálfræði sem og uppeldis- og kennslufræði og hefur þar með leyfisbréf sem framhaldsskólakennari.

Nú eru til umfjöllunar í mennta- og menningarmálaráðuneytinu hugmyndir um eitt leyfisbréf kennara á öllum skólastigum. Forysta grunnskólakennara hefur stutt breytingar á útgáfu leyfisbréfa þótt öllum megi vera ljóst að það eru einmitt þeir kennarar sem ættu að hafa hvað mestar áhyggjur af stöðu sinni.

Eitt leyfisbréf þýðir einmitt að Georg Bjarnfreðarson gætið setið fyrir um allar kennarastöður í grunnskóla ef tekið er mið af þeim frumvarpsdrögum sem nú hafa verið kynnt almenningi. Grunnskólakennari, hvort sem hann væri með gamla B.Ed prófið eða M.Ed gráðu, ætti ekki möguleika í Georg.

Þó svo skólastjórar virðist halda að nýtt leyfisbréf færi þeim meira vald yfir ráðningum í grunnskóla, gilda hér eftir sem hingað til stjórnsýslulög og lög um opinbera starfsmenn. Þar verða málefnaleg rök að liggja til grundvallar öllum ráðningum og almennt sitja þeir fyrir sem mesta hafa menntunina. Georg okkar Bjarnfreðarson hefur meiri menntun en flestir í félagsgreinum og ættu fáir grunnskólakennarar séns á móti honum. Eitt leyfisbréf mun væntanlega gera það að verkum að framhaldsskólakennarar hafa forgang fram yfir grunnskólakennara við ráðningar vegna langrar menntunar sinnar. Grunnskólakennarar eiga aftur á móti minni möguleika á starfi í framhaldsskóla þar sem þar eru áfram gerðar talsvert miklar kröfur um sérhæfingu. Grunnskólakennarar eiga litla möguleika á starfi í leikskóla nema búa yfir sérhæfingu í leikskólakennarafræðum á meðan leikskólakennarar geta auðveldlega gengið í stöður yngri barna kennslu í grunnskóla.

Það er eins og það hafi skort rækilega rýni á nýjum frumvarpsdrögum af hálfu grunnskólakennara eins og sjá má af örstuttri umsögn þeirra í samráðsgátt stjórnvalda. Hefði sú rýni farið fram, má vera að forystunni hefði orðið ljóst hversu afdrifarík ný lög um eitt leyfisbréf geta orðið fyrir stétt grunnskólakennara.

Höfundur er í samninganefnd Félags framhaldsskólakennara




Skoðun

Sjá meira


×