Skoðun

Hvað er líkt með banka­hruninu og falli WOW?

Þórir Garðarsson skrifar
Við þurfum ekki að örvænta um samkeppni í flugsamgöngum þó WOW sé horfið á braut. Auk Icelandair fljúga 15 erlend flugfélög hingað að vetri til og 25 að sumri til. Mörg félaganna fljúga á sömu leiðum og Icelandair. Samkeppnin er því fyrir hendi, þó hún sé ekki sú sama og með WOW.

Umhverfið í flugsamgöngum er gjörbreytt frá því fyrir 16 árum þegar Iceland Express hóf starfsemi og bauð lægri fargjöld en áður höfðu þekkst. Þá var engin samkeppni að heitið gæti í millilandaflugi. Aðeins Icelandair flaug til Norður-Ameríku. Núna sinna fimm flugfélög þeim markaði, voru sex með WOW. Fjöldi lágfargjaldafélaga flýgur hingað alls staðar að úr Evrópu.

Þarf tvö íslensk félög í millilandaflugi?

Margir velta vöngum yfir hvort þörf sé fyrir tvö íslensk flugfélög til að sinna flugi yfir hafið með tengiflugvöll í Keflavík. Íslenski markaðurinn sem slíkur rís klárlega ekki undir því. Eigandi WOW áttaði sig á því fljótt í upphafi rekstrarins að hann yrði að fara í mikla útrás á erlenda samkeppnismarkaði. Sem hann og gerði. Ísland var of lítið. Endalok þeirrar útrásar minna um margt á íslensku bankaútrásina. Litli íslenski markaðurinn nægði ekki stórhuga víkingum. Gleðin réði ríkjum um stund, enginn vildi vera leiðinlegur og spilla partíinu. Þetta gekk svo vel - á yfirborðinu. En í báðum tilfellum fóru menn undirfjármagnaðir í áhættusaman rekstur og því fór sem fór.



Við erum í góðum málum

Þrátt fyrir fall WOW eru Íslendingar og íslensk ferðaþjónusta í mjög góðum málum með flugsamgöngur til lengri tíma litið. Áhuginn á Íslandi erlendis er mikill og það skapar grundvöll fyrir erlend flugfélög til að stilla upp áætlunarferðum hingað, fyrst og fremst fyrir sitt heimafólk. Við Íslendingar njótum góðs af því í auknu úrvali áfangastaða og hagstæðum fargjöldum. Ávinningur ferðaþjónustunnar er mikill af því að stór erlend flugfélög setji Ísland á dagskrá og inn í sitt sölukerfi sem hefur gríðarlega útbreiðslu. Markaðssetning þessara félaga er afar dýrmæt og sparar okkur mikil útgjöld.

Þó Icelandair sé eina flugfélagið í íslenskri eigu sem sinnir millilandaflugi, þá er það ekki hundrað í hættunni. Samkeppni erlendu flugfélaganna skapar aðhald og við getum hlúð að samkeppninni með því að halda Íslandi áfram sem áhugaverðum áfangastað á samkeppnishæfu verði.

Höfundur er stjórnarformaður Gray Line.


Tengdar fréttir

Lífið eftir WOW

Stjórnarformaður Gray Line segir að ef rétt er haldið á spöðunum þá komi í ljós að það er líf eftir WOW.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×