Innlent

Ósátt við að börn séu tengd göddum, leðri og kynferðislegum órum

Jakob Bjarnar skrifar
Áslaug er afar ósátt við að börn í Breiðagerðisskóla verið látin taka þátt í atriði Hatara, sem hún telur á vegum hins 
illa.
Áslaug er afar ósátt við að börn í Breiðagerðisskóla verið látin taka þátt í atriði Hatara, sem hún telur á vegum hins illa.

Áslaug Einarsdóttir, master í blaða- og fréttamennsku, er afar ósátt við að barn hennar hafi verið hluti af atriði Hatara í innslagi sem sýnt var áður en þeir fóru á svið í Söngvakeppninni.

Hún segir, í samtali við Vísi, að hún viti um fleiri mæður sem eru í sömu stöðu. Áslaug Einarsdóttir hefur skrifað pistil sem Vísir birti og hefur vakið mikla athygli. Þar vitnar hún í Biblíuna og telur einsýnt að atriði Hatara sé á vegum myrkursins og hins illa. Þar gagnrýnir hún það hversu skammur fyrirvari var en bréf frá skólanum þar sem leitað var eftir samþykki foreldra barst tveimur dögum áður en upptaka fór fram.

Foreldrar hæst ánægðir með BDSM-boðskap

„Viðbrögð fólks við gjörningnum og það mikla fylgi sem hann fær er mér hulin ráðgáta. Fólk talar um hina mikilvægu pólitísku ádeilu og sver sig stolt í ætt hóps svokallaðra hatara sem settir eru í búning hetjunnar sem þorir að bera út mikilvægan boðskap sinn,“ segir Áslaug meðal annars í pistli sínum.

„Foreldrar virðast hæstánægð með sigurlagið og telja það eiga erindi til barna sinna með sinn mikilvæga boðskap. En hver er boðskapurinn? Hvar er vonin? Hvert er svarið? Börn klæddust BDSM búningum á Öskudag og mér til mikillar skelfingar er því tekið með fögnuði hinna fullorðnu. Eigum við að bjóða BDSM-liðum í skólana næst?“ spyr Áslaug og bætir því við að Hatarar séu „yfirlýstur BDSM hópur þar sem leðurólar, gaddar og kynferðislegri órar virðast ráða ríkjum.“
 

Telur foreldra ekki hafa átt neinn valkost

Vísir greindi frá því á dögunum að foreldrum og forráðamönnum barna í 3., 4. og 5. bekk í Breiðagerðisskóla barst bréf frá Þorkeli Daníel Jónssyni skólastjóra þar sem þeim gefst kostur á að hafna þátttöku fyrir hönd barna sinna í atriði sem RÚV tekur upp sérstaklega á morgun og tengist hljómsveitinni Hatara.

„Engin öskur, engir gaddar og engar ólar. Hlutverk krakkanna er bara að fagna. Áherslan í myndatökunni verður á hóp barna en ekki einstök börn,“ sagði í bréfi skólastjórans sem áréttaði að hér væri ekki verið að gefa hinum meinta boðskap Hatara um hatur undir fótinn heldur þvert á móti.

Áslaug gefur ekki mikið fyrir þetta. „Foreldrum var gefinn kostur á að hafna þátttöku barna sinna í gjörningnum en ekki var farið fram á samþykki foreldranna. Þar sem fyrirvarinn var nánast enginn var krökkunum ekki gefið val eða svigrúm til að taka upplýsta ákvörðun í samráði við foreldra sína um hvort þau vildu leggja lag sitt við hóp hataranna. Eurovision er mikil barnaskemmtun og að koma fram í beinni útsendingu í sjónvarpi í Euróvisionkeppninni hlýtur að vera mjög spennandi,“ segir hún og telur að fólk hafi í raun ekki átt neinn kost í stöðunni.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.