Innlent

Landsmenn borða hátt í milljón bollur

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Talið er að landsmenn borði allt að milljón bollur í kringum bolludaginn. Það eru tæplega þrjár á mann.
Talið er að landsmenn borði allt að milljón bollur í kringum bolludaginn. Það eru tæplega þrjár á mann.

Annasamasti dagur ársins hjá bökurum er í dag þar sem landsmenn úða í sig bollum í tilefni bolludagsins. Að sögn bakara er klassísk vatnsdeigsbolla með sultu og rjóma alltaf vinsælust. Talið er að landsmenn sporðrenni hátt í milljón bollum í kringum daginn, eða um þremur á mann.

Bolludagurinn á sér langa sögu á Íslandi en hann markar upphaf föstuinngangs, eða þriggja síðustu daganna fyrir lönguföstu, sem hefst á öskudag. Talið er líklegt að fólk hafi nýtt sér þessa síðustu daga fyrir langt föstutímabil til að gæða sér á brauðmeti. Ein fyrsta íslenska heimildin er einmitt bolluuppskrift frá 1858 þar sem bollurnar eru nefndar lönguföstusnúðar. Í dag eru fáar aðrar hefðir í kringum bolludaginn en sætindaát. Enda er þetta annasamasti dagur ársins hjá bökurum.

Áslaug Filippa Jónsdóttir, verslunarstjóri í Mosfellsbakarí.

Hvað bökuðuð þið margar bollur í ár?

„Þrjátíu og tvö þúsund, frá fimmtudegi og með deginum í dag," segir Áslaug Filippa Jónsdóttir, verslunarstjóri í Mosfellsbakarí.

Er það nóg til að anna eftirspurn?

„Já, yfrleitt. Það verður kannski smá eftir í lok dags, en vonandi klárast allt."

Þrátt fyrir að nokkur nýsköpun sé í bollubakstri er klassíska útgáfan vinsælust. 

Hvernig er vinsælasta bollan?

„Það er venjuleg vatnsdeigsbolla, með sultu og rjóma."

En hver er óvinsælasta bollan?

„Eru þær ekki allar vinsælar? Jú, eitthvað gerum við af sultulausum, það er nú ekki mikið en það eru alltaf einhverjir sem vilja svoleiðis," segir Áslaug.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.