Erlent

Fjölskyldur fluttar á brott úr síðasta ferkílómetra ISIS

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Andstæðingar ISIS fylgjast grannt með hreyfingum vígamanna samtakanna.
Andstæðingar ISIS fylgjast grannt með hreyfingum vígamanna samtakanna. AP/Felipe Dana
Unnið er að því að koma um 200 fjölskyldum sem fastar voru í Baghuz í Sýrlandi, síðasta vígi hryðjuverkasamtakanna ISIS. Flutningabílar ferma fjölskyldurnar á brott. BBC greinir frá.

Sótt er hart að ISIS þessa dagana en talið er að yfirráðasvæði ISIS í bænum sé aðeins 0,5 ferkílómetrar. Fyrir fimm árum náði yfirráðasvæði ISIS yfir 88 þúsund ferkílómetra í Sýrlandi og Írak.

Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, kallaði eftir því í gær að fjölskyldur vígamanna fengu að yfirgefa bæinn en talið var að liðsmenn ISIS hafi komið í veg fyrir að þær kæmust í burtu.

Um 50 flutningabílar voru fluttir að bænum í gær eftir óstaðfestar fregnir um að komist hafi á samkomulag um að flytja mætti konur og börn úr bænum. Fjölmiðlamenn sem fylgjast með átökunum segja að minnst tíu flutningabílum hafi verið ekið inn í bæinn og haldið á brott með fjölskyldur sem þar voru fastar.

Talið er að 300 vígamenn ISIS haldi síðasta víginu. Ekki er búist við því að þeir geti haldið lengi út gegn andstæðingum sínum sem njóta stuðnings loftárasa Bandaríkjanna og bandamanna þeirra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×