Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Valur 28-33 | Valur aftur á toppinn

Skúli Arnarson skrifar
Valsmenn fagna
Valsmenn fagna Vísir/Bára
Valur vann góðan fimm marka sigur gegn ÍR í Austurbergi í kvöld með 33 mörkum gegn 28. Leikurinn var liður í fimmtándu umferð Olísdeildar karla. Það var ljóst fyrir leikinn að mikið væri undir fyrir bæði lið. Valsmenn gátu með sigri komist upp í fyrsta sæti og ÍR er í baráttu um að komast í úrslitakeppnina.

Fyrri hálfleikur var rosalega hraður og mikil skemmtun. Valsmenn keyrðu mikið á ÍR og fengu mörg mörk upp úr hröðum miðjum. Hálfleikurinn var fremur jafn og eftir um 20 mínútur var staðan 11-12 fyrir Val. Þá gáfu Valsmenn aðeins í og komust í 13-18 þegar um fjórar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var 16-20 Val í vil.

Valur kom af krafti út í seinni hálfleikinn og skoruðu fyrstu tvo mörk hálfleiksins og voru þá komnir með sex marka forystu. ÍR-ingar gáfust þó ekki upp og þegar um 10 mínútur lifðu leiks var munurinn aðeins tvö mörk, 24-26. Valur reyndist hinsvegar sterkari á lokakaflanum og vann á endanum fimm marka sigur, 28-33.

Með sigrinum komust Valur upp fyrir Hauka í fyrsta sætið en ÍR situr enn í áttunda sæti deildarinnar og eru jafnir að stigum og KA og Stjarnan sem sitja í níunda og sjöunda sæti.

Hvers vegna vann Valur?

Valur er með talsvert breiðari hóp og gátu þar af leiðandi keyrt hratt á ÍR. Þeir hefðu getað verið fleiri mörkum yfir hefði Björgvin Hólmgeirsson ekki átt skínandi góðan fyrri hálfleik en hann var með níu mörk í fyrri hálfleik. Valur voru klókari á lokakaflanum og unnu að lokum nokkuð sanngjarnan sigur.

Hverjir stóðu upp úr?

Magnús Óli var frábær í liði Vals með 12 mörk í 17 skotum. Næstur á eftir honum í markaskorun í Valsliðinu var Sveinn Aron Sveinsson með 6 mörk í 9 skotum.

Í liði ÍR var Björgvin Hólmgeirsson markahæstur með 11 mörk úr 21 skoti en hann var sérstaklega góður í fyrri hálfleik. Næstir á eftir honum í ÍR komu Kristján Orri Jóhannsson og Sturla Ásgeirsson, báðir með 5 mörk.

Hvað gekk illa?

ÍR voru seinir til baka í fyrri hálfleik og fengu Valur alltof mörg mörk úr hraðaupphlaupum og hröðum miðjum. Það hægðist talsvert á leiknum í seinni hálfleik og því var þetta ekki eins áberandi í seinni hálfleik. Markvarsla ÍR var ekki nægilega góð og hefðu þeir getað verið talsvert nær sigri ef Stephen Nielsen hefði fundið sig í markinu en hann var með 19% vörslu í kvöld.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leik í átta liða úrslitum í bikarnum. ÍR fara til Vestmannaeyja og leika við ÍBV þriðjudaginn 19.febrúar og Valur leika við Selfoss mánudaginn 18.febrúar.   

Snorri Steinn Guðjónssonvísir/bára
Snorri Steinn: Erfitt að koma hérna í Austurbergið

„Ég er mjög ánægður. Ég er mjög ánægður með okkar leik lengst af. Það er erfitt að koma hérna í Austurbergið, ÍR eru með hörku lið. Við undirbjuggum okkur vel og tókum þessu mjög alvarlega,” sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, í leikslok.  

Snorri segir að það sé alltaf uppleggið að spila hraðan handbolta.

„Við reynum að keyra á liðin og erum að gera það. Það gengur auðvitað misvel en þannig viljum við spila, hraðan bolta og fá mikið af hraðaupphlaupum.”

Snorri var ánægður með hvernig Valsmenn nýttu landsleikjahléið. 

„Ég var ánægður með fríið. Við gerðum gott úr því þrátt fyrir að þetta sé ekkert frábær mánuður. Við fórum allir til Spánar, það var gott. Við erum með tvo sigra svo að við erum að koma ágætlega undan þessu fríi.”

Valsmenn gætu verið án nokkurra leikmanna í bikarleiknum gegn Selfossi og segir Snorri að liðið þurfi að eiga toppleik.

„Við þurfum að eiga toppleik. Það vita allir hvað Selfoss liðið er gott. Við þurfum aðeins að taka stöðuna á liðinu, það lítur út fyrir það að það verði ekki allir með. Agnar spilaði mjög lítið og það lítur illa út með hann. Eins er Róbert Aron tæpur og hann spilaði í rauninni alltof mikið í dag.”

Bjarni Fritzsonvísir/bára
Bjarni: Búnir að spila hrikalega vel í töluverðan tíma.

Bjarni Fritzson var svekktur í leikslok en þó sá hann margt jákvætt í leik sinna manna.

„Ég er bara svekktur að hafa tapað leiknum. Ég er samt ánægður með margt í leiknum. Ég hefði viljað ná að halda út allan leikinn, við gátum minnkað muninn í eitt mark, en mér fannst við aðeins gefa þeim þetta í lokin.”

Bjarna fannst þreyta ekki vera ástæðan fyrir því að ÍR misstu þetta niður í lokin.  

„Við klúðrum bara þarna einu færi og þeir koma og skora á okkur og þá eru komin þrjú í staðinn fyrir að minnka í eitt.”

ÍR fengu á sig 20 mörk í fyrri hálfleik sem er alltof mikið fyrir jafn sterkt lið og ÍR er.

„Við vorum ekki augljóslega ekki góðir varnarlega í fyrri hálfleik en aðalega fannst mér við bara lengi til baka. Ég vil samt bara hrósa Val fyrir flotta seinni bylgju. Þeir refsuðu okkur fyrir hvert einasta lélega hlaup. Við erum að hlaupa og snúa mikið betur í seinni hálfleik.”

ÍR eru í rosalegri baráttu um áttunda sætið sem er jafnframt síðasta sætið sem fleytir mönnum inn í úrslitakeppni. Bjarna líst vel á spilamennsku liðsins fyrir þessi loka átök.

„Við erum búnir að vera spila hrikalega vel núna í töluverðan tíma svo ég er bara bjartsýnn á framhaldið.“

ÍR eiga ÍBV í bikarnum í næsta leik. Bjarni reiknar með rosalegum leik.

„Þetta verður 50/50 leikur, hasar og mikil læti. Við vorum að spila á móti þeim og sá leikur fór jafntefli í geggjuðum leik svo að ég reikna bara með öðru eins.”

Magnús Óli Magnússonvísir/bára
Magnús Óli: Tvö góð stig á erfiðum útivelli.

„Þetta eru tvö mjög góð stig á erfiðum útivelli. ÍR hætta aldrei og við ákváðum að keyra á þetta í 60 mínútur og það tókst,” sagði Magnús Óli Magnússon, sem var besti maður Vals í dag, í leikslok.

Magnús sagði að uppleggið hefði verið að keyra á ÍR.

„Við lögðum svolítið upp með að keyra á þá og það gekk vel, sérstaklega í fyrri hálfleik. Það kom smá bakslag í seinni en ég er ánægður með að klára þetta.”

Magnús var ánægður með sinn leik og hrósaði jafnframt liðsfélögum sínum.

„Ég var að finna mig í dag en ég er með flotta gæja hliðina á mér sem leggja þetta vel upp fyrir mig”

Magnús segir að landsleikjahléið hafi verið vel nýtt hjá Val.

„Já algjörlega. Við æfðum vel og erum aðeins búnir að laga sóknarleikinn og það er góður bragur á þessu.”

Valur eiga Selfoss í næsta leik í bikarnum. Magnús segir að Valur þurfi bara að halda áfram á sömu braut til að vinna Selfoss.

„Við þurfum bara að spila okkar leik, halda okkar dampi.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira