Handbolti

Elvar: Höfum alltaf trú á að við getum unnið

Arnar Helgi Magnússon í Hleðsluhöllinni í Iðu skrifar
Elvar Örn Jónsson, leikmaður Selfoss.
Elvar Örn Jónsson, leikmaður Selfoss. vísir/Bára

Það var létt yfir Elvari Erni Jónssyni eftir enn einn endurkomusigur Selfyssinga í Olísdeildinni í kvöld. Selfoss hafði betur 30-28 gegn ÍBV í Suðurlandsslag á Selfossi.

„Ég er bara glaður. Þvílíkur karakter að ná að snúa þessu við. Við erum undir held ég allan leikinn en náum að snúa þessu síðustu þrjár mínúturnar. Það koma hrikalega góðar varnir og við náum að stoppa Kára á línunni. Ég er bara hrikalega ánægður með þetta,” sagði Elvar í leikslok.

Selfyssingar hafa svo oft spilað betur en í kvöld en náðu einmitt, eins og svo oft áður að klára leikinn.

„Já, mest megnið af leiknum vorum við að tapa mikið einn á einn, við spilum framliggjandi og þá þarf að standa einn á einn. Við vorum ekki klárir í það í dag og við þurftum að bakka aðeins niður. Það byrjaði að vinna með okkur og við náðum að stöðva línuspilið. Síðan datt sóknarleikurinn í gang í síðari hálfleik.”

„Við höfum alltaf trú á því að við getum unnið leikina, sama hvað staðan er. Við höldum alltaf áfram og gefumst aldrei upp.”

Lætin í Hleðsluhöllini voru engu lík í kvöld en Selfyssingar og Eyjamenn fjölmenntu á leikinn.

„Stúkan á Selfossi er alltaf frábær, í hverjum einasta leik. Mér finnst við vera með bestu stuðningsmennina á landinu. Það heyrist langmest í þeim, það er geggjað að spila hérna. Ég elska þessa Selfoss stuðningsmenn.”

Selfyssingar eiga erfitt leikjaprógram framundan en Elvar er bjartsýnn á næstu daga og vikur.

„Við erum vel undirbúnir, á morgun er endurheimt og síðan eru bara æfingar og vídeófundir fyrir Valsarana. Þetta er erfitt en við verðum klárir.”Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.