Innlent

Vildi bætur eftir að vél Wow var snúið við vegna með­vitundar­lausra far­þega

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Farþeginn kom á áfangastað sex tímum of seint.
Farþeginn kom á áfangastað sex tímum of seint. Vísir/Vilhelm
Samgöngustofa hefur hafnað bótakröfu farþega Wow Air sem krafðist þess að fá bætur eftir að flugvél flugfélagsins var snúið við svo koma mætti tveimur öðrum farþegum undir læknishendur. Seinkunin sem varð vegna þess varð til þess að farþeginn missti af tengiflugi sínu í París.

Maðurinn var farþegi í flugi Wow Air frá Keflavík til Parísar þann 27. september 2017. Eftir um einnar klukkustundar flug urðu áhafnarmeðlimir þess varir að tveir farþegar vélarinnar voru meðvitundarlausir. Var því tekin ákvörðun um að snúa vélinni aftur til Keflavíkur til þess að koma farþegunum undir læknishendur svo fljótt sem auðið var.

Þetta varð til þess að flugvélin lenti í París um sex og hálfum tíma eftir áætluðum komutíma. Þar missti maðurinn af tengifluginu sínu. Krafðist hann því að fá staðlaðar bætur samkvæmt reglugerð ESB, 400 evrur, auk endurgreiðslu kostnaðar.

Öryggi farþega trompi rétt annarra farþega til að koma á réttum tíma

Wow Air hafnaði hins vegar bótaskyldu á þeim grundvelli að flugfélaginu hafi borið skylda til þess að bregðast við líkt og gert var, þegar ljóst var að tveir farþegar í flugvélinni væru meðvitundarlausir.

„Öryggi farþega hefur alltaf forgang gagnvart rétti annarra farþega til þess að lenda á áfangastað sínum á upphaflegum áætluðum komutíma,“ segir í svari Wow Air til Samgöngustofu vegna kröfu mannsins.

Í úrskurði Samgöngustofu segir að ljóst sé að ákvörðun flugstjóra um að snúa vélinni aftur til Keflavíkur hafi verið tekin á þeim forsendum að tryggja öryggi viðkomandi farþega og koma þeim undir læknishendur svo fljótt sem auðið var. Stofnunin endurskoði ekki ákvarðanir flugstjóra þegar kemur að öryggi farþega og var því fallist á að óviðráðanlegar aðstæður hafi valdið seinkun á fluginu.

Var bótakröfu mannsins því hafnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×