Viðskipti innlent

Tollar hækki kíló­verð á kjúk­linga­bringum um 700 krónur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Úr Bónusversluninni við Hallveigarstíg, sem lokaði á dögunum.
Úr Bónusversluninni við Hallveigarstíg, sem lokaði á dögunum. Vísir
Framkvæmdastjóri Bónuss segir að þrátt fyrir að smæð íslenska dagvörumarkaðarins, flutnings- og launakostnaður hafi sín áhrif á verðlag verði ekki litið hjá verndarstefnu íslenskra stjórnvalda. „Grímulaus sérhagsmunagæsla“ landbúnaðarins skili sér í innflutningstollum og hærri skattlagningu á neytendur – sem um leið rýrir kaupmátt. Ef ekki væri fyrir innflutningstollana gæti Bónus t.a.m. lækkað verð á innfluttum kjúklingi um 40 prósent.

Nýleg verðkönnun ASÍ hefur verið á milli tannanna á fólki undanfarna viku. Meðal niðurstaðna hennar var að matarkarfa á Íslandi sé tugum prósenta dýrari en annars staðar á Norðurlöndum – en sitt sýnist hverjum um hvernig skuli túlka niðurstöðurnar.

Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, lágvöruverðsverslunarkeðjunnar sem hefur stærsta markaðshlutdeild á íslenskum dagvörumarkaði, var gestur Bítisins á Bylgjunni í morgun. Hann segir íslenska verslun oft hafa setið undir ósanngjarnri gagnrýni í þessari umræðu og verið sökuð um óheilbrigða álagningu.

15 prósent álagning útskýri ekki 67 prósent mun

Þrátt fyrir að álagning Bónus sé trúnaðarmál upplýsti Guðmundur að meðalframlegð verslunarkeðjunnar væri innan við 15 prósent, sem væri svigrúmið sem Bónus hefði til að standa straum af öllum kostnaði. Verðmunurinn í fyrrnefndri könnun hafi hins vegar numið tugum prósenta, 67 prósent í samanburði við Finnland. Því verði sá munur ekki skýrður með álagningu verslunarinnar, að sögn Guðmundar.

Hann vill túlka niðurstöður ASÍ á þá leið að það séu ekki síst landbúnaðarvörur sem hífa upp matvælaverð hér á landi. Nefndi hann í því samhengi að ekki aðeins séu neytendur að greiða hátt verð fyrir mjólkurvörur heldur séu þær jafnframt niðurgreiddar með skattpeningum landsmanna. Íslendingar séu því að greiða tvisvar fyrir vöruna þegar þeir skanna hana á afgreiðslukössum verslananna.

Tollar hækki verð um 700 krónur

Því til staðfestingar hvetur Guðmundur landsmenn til að prenta út verðlista Mjólkursamsölunnar, sem nálgast má á vef MS, og taka hann með sér í næstu innkaupaferð. Þannig megi bera saman heildsöluverð MS, að viðbættum virðisaukaskatti, við útsöluverð verslananna. „Þá sjáiði hver álagningin er,“ segir Guðmundur. Bónus hafi keypt mjólkurvörur í fyrra fyrir um 7,5 milljarða og fengið afslátt á bilinu 2 til 6 prósent. Stærðarhagkvæmnin sé ekki meiri. „Þrátt fyrir að Hagar séu stórir á íslenskan mælikvarða eru þeir algjörir örkaupendur í alþjóðlegu samhengi,“ bætti hann við.

Því næst beindi hann spjótum sínum að innflutningsvernd íslenskra stjórnvalda, sem birtist ekki síst í tollvernd á margvíslegum vörum sem taldar eru vera í samkeppni við innlenda framleiðslu. Guðmundur nefnir í því samhengi að ódýrustu kjúklingabringurnar sem fáist í Bónus séu innfluttar, danskar Euroshopper-bringur, sem kosti í dag 1667 krónur kílóið. „Inni í því verði er samt 700 krónu tollur,“ útskýrir Guðmundur. „Ef við þyrftum ekki að borga þennan toll þá gætum við selt þessar bringur á innan við þúsund krónur kílóið eins og þekkist í nágrannalöndunum,“ segir Guðmundur.

Hann sagði auk þess að neytendur þyrftu ekki að efast um gæði varanna. Ekki megi flytja inn umræddar kjúklingabringur án þess að þær hafi hlotið vottun sem staðfesti gæði og heilnæmi þeirra.

Það verði þó ekki litið hjá því að Ísland sé eyja og að hingað þurfi að flytja vörur með tilheyrandi kostnaði. Guðmundur segir að Bónus fljúgi til að mynda inn berjum daglega frá útlöndum, sem kosti um 300 krónur á hvert innflutt kíló. Hið sama sé ekki upp á teningnum erlendis, þar sem hægt er að keyra vörurnar daglega í verslanir með inni tilkostnaði. Þetta hafi sín áhrif á verðlagningu.



Verðhækkun Costco staðfesti góða frammistöðu íslenskrar verslunar

Að sama skapi segir Guðmundur að íslenskir heildsalar taki til sín dágóðan hluta kökunnar. Þeir reki gríðarstór vöruhús og mikil dreifikerfi, sem séu fjármagnsfrek. „Þetta kostar allt, þetta er rándýrt kerfi,“ segir Guðmundur og bætir við að hægt væri að lækka verð enn frekar ef draga mætti úr kostnaði heildsölunnar.

Guðmundi þykir ósanngjarnt að í umræðum um verðlag á Íslandi sé verslunin „alltaf töluð niður.“ Réttara væri að horfa til þeirra pólitísku ákvarðana sem hafa áhrif á verðlag, eins og til að mynda fyrrnefndra innflutningstolla. Tók hann í því samhengi dæmi af Costco, næst stærsta smásala í heimi, sem opnaði verslun hér vorið 2017. Margir tóku vöruverði þeirra fagnandi en hafa síðar kvartað yfir því að verslunin hafi hækkað verðið. Það kemur Guðmundi ekki á óvart, Costco hafi verið rekið með gríðarlegu tapi fyrstu þrjá mánuðina eftir opnun – sem Guðmundur áætlar að hafi numið um 400 milljón krónum. Það að verðið í Costco sé nú sambærilegt því sem þekkist í öðrum verslunum sé sönnun þess, að mati Guðmundar, að íslensk verslun sé að standa sig „mjög vel“ í verðlagningu.

Spjall Guðmundar við Bítið má heyra hér að ofan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×