Innlent

At­hugað í fyrra­málið hvort hægt verði að opna vegi á Austur­landi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skjáskoti af korti Vegagerðarinnar sem sýnir lokanir á Austurlandi.
Skjáskoti af korti Vegagerðarinnar sem sýnir lokanir á Austurlandi.

Fjöldi vega á Austurlandi er lokaður vegna veðurs og snjóflóðahættu en á vef Vegagerðarinnar segir að athugað verði í fyrramálið hvort hægt verði að opna á ný.

Þannig er vegurinn um Fagradal lokaður vegna veðurs og snjóflóðahættu, Fjarðarheið er lokuð vegna veðurs sem og Mývatns- og Möðrudalsöræfi. Þá er vegurinn um Hvalnesskriður lokaður vegna snjóflóðs.

Skafrenningur er svo mjög víða á Norðurlandi sem og á Vestfjörðum.

Stíf norðanátt með ofankomu er á norðausturhluta landsins og segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, að á morgun dragi smátt og smátt úr veðrinu.
Þannig verði stíf norðanátt verði lengst af enn á morgun og það sé í raun ekki fyrr en á sunnudag sem það verði komið fínasta veður á landinu öllu.

Þeir sem hyggja á ferðalög á morgun ættu því að fylgjast vel með veðurspám og færð á vegum.

Færð á vegum samkvæmt vef Vegagerðarinnar:

Suðvesturland: Víðast hvar greiðfært en hálkublettir á nokkrum vegum. Hálkublettir og skafrenningur er á Mosfellsheiði en óveður er á Kjalarnesi.

Vesturland: Hálka, hálkublettir eða snjóþekja og sums staðar skafrenningur. Þæfingur er á Vatnaleið, Fróðárheiði sem og milli Búða og Hellna. Skyggni er lítið við Hafursfell sem og á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Vestfirðir: Hálka, hálkublettir eða  snjóþekja er á vegum og éljagangur eða skafrenningur mjög víða. Þæfingsfærð er á Klettshálsi, Steingrímsfjarðarheiði, á Þröskuldum og á Kaldrananesi en þungfært er á Bjarnarfjarðarhálsi.

Norðurland: Víðast hálka eða snjóþekja og mjög víða skafrenningur. Þæfingsfærð er á Þverárfjalli, í Ólafsfjarðarmúla, milli Dalvíkur og Árskógsstrandar sem og á Grenivíkurvegi. Ófært er um Víkurskarð og Almenninga, milli Siglufjarðar og Fljóta.

Norðausturland: Snjóþekja víðast hvar og skafrenningur. Þæfingsfærð er á Fljótsheiði sem og í Bakkafirði en þungfært er orðið á Tjörnesi, innansveitar í Vopnafirði sem og á Brekknaheiði. Ófært er um Hófaskarð og Hálsa en lokað er um Mývatns- og Möðrudalsöræfi sem og á Hólasandi.

Austurland: Snjóþekja, þæfingur eða jafnvel þungfært er nokkuð víða. Ófært er í Skriðdal, Hróarstungu og á Vatnsskarði eystra en lokað er á Fjarðarheiði, á Fagradal og í Hvalnesskriðum.

Suðausturland: Hálkublettir eða hálka víðast hvar og sums staðar skafrenningur.


Suðurland: Hringvegurinn er nánast auður en sums staðar er nokkur hálka eða hálkublettir á öðrum vegum. Skafrenningur er Lyngdalsheiði.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.