Erlent

Fengu ekki vinnu en urðu hamingju­samari á borgara­launum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Verkefnið gekk út á það að 2000 atvinnulausir Finnar fengu borgaralaun, eða það sem líka hefur verið óskilyrt framfærsla, og nam upphæðin 560 evrum á mánuði. Markmiðið var að kanna hvort að örugg framfærsla gæti hjálpað fólki í atvinnuleit.
Verkefnið gekk út á það að 2000 atvinnulausir Finnar fengu borgaralaun, eða það sem líka hefur verið óskilyrt framfærsla, og nam upphæðin 560 evrum á mánuði. Markmiðið var að kanna hvort að örugg framfærsla gæti hjálpað fólki í atvinnuleit. vísir/epa
Atvinnulausir Finnar sem tóku þátt í tilraunaverkefni með borgaralaun urðu hamingjusamari á laununum en fengu ekki endilega vinnu.

Þetta sýna fyrstu niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar á verkefninu en það hófst í janúar 2017 og lauk í desember síðastliðnum.

Verkefnið gekk út á það að 2000 atvinnulausir Finnar fengu borgaralaun, eða það sem líka hefur verið óskilyrt framfærsla, og nam upphæðin 560 evrum á mánuði. Markmiðið var að kanna hvort að örugg framfærsla gæti hjálpað fólki í atvinnuleit.

Fyrstu niðurstöður rannsóknar á áhrifum borgaralauna sýna að fólk sem fékk framfærsluna var ekki líklegra til þess að finna sér vinnu heldur en þeir sem fengu enga framfærslu. Þeir sem voru á borgaralaunum voru hins vegar hamingjusamari og ekki eins stressaðir.

Að því er fram kemur í frétt BBC um málið eru rannsakendur nú að kanna hvers vegna þetta er niðurstaðan en áætlað er að rannsókninni ljúki á næsta ári.

BBC ræddi við einn af þeim sem fengu borgaralaun, fyrrverandi ritstjóra sem heitir Tuomas.

„Ég er enn án vinnu. Ég get ekki sagt að borgaralaunin hafi breytt miklu í lífi mínu. Andlega, jú, en ekki fjárhagslega,“ segir Tuomas.

Miska Simanainen er einn af vísindamönnum sem stendur að rannsókninni á áhrifum borgaralauna. Hann segist ekki vilja líta svo á að verkefninu hafi mistekist vegna þess að fólk fékk ekkert endilega vinnu.

„Þetta er hvorki eitthvað sem misheppnaðist eða tókst vel. Þetta eru staðreyndirnar og þær veita okkur nýjar upplýsingar sem við höfðum ekki áður en ráðist var í þetta verkefni,“ segir Simanainen.


Tengdar fréttir

Vill kanna áhrif borgaralauna á íslenskt samfélag

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna voru gestir Heimis Más Péturssonar í Víglínunni í dag. Þar ræddu þau meðal annars frumvarp Pírata um borgaralaun.

Segir „krónu á móti krónu“-kerfið algjörlega gjaldþrota

Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar segir að núverandi kerfi sé algjörlega gjaldþrota hvað varðar örorkulífeyri, þá gagnrýnir hann einnig heilbrigðiskerfið vegna fordóma gagnvart geðrænum kvillum. Þorsteinn og Inga Sæland voru gestir Heimis Más Péturssonar í Víglínunni í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×