Innlent

Stórir aðilar á vinnumarkaði beiti sér gegn ólíðandi brotum á starfsmönnum

Sighvatur Jónsson skrifar
Rúmensku starfsmennirnir dvelja í ólöglegu íbúðarhúsnæði í Hjallabrekku í Kópavogi.
Rúmensku starfsmennirnir dvelja í ólöglegu íbúðarhúsnæði í Hjallabrekku í Kópavogi. Visir/Sigurjón

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir atriði í kröfugerð Eflingar varðandi starfsmannaleigur hafa verið rædd við samningaborðið. Mestu máli skipti að stórir aðilar á vinnumarkaði beiti sér í sameiningu gegn ólíðandi brotum á starfsmönnum.

Fréttastofa hefur fjallað um mál rúmenskra starfsmanna starfsmannaleigunnar Menn í vinnu, grunur er um að þeir séu í nauðungarvinnu hjá fyrirtækinu.

Samtök atvinnulífsins sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem aðildarfyrirtæki samtakanna eru hvött til að skipta aðeins við starfsmannleigur sem þau bera fullt traust til.

Sólveig Anna Jónsdóttir í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. Vísir/Stöð 2

Kröfur um sektarákvæði

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að stjórnvöld beri ábyrgð á því að fylgjast með starfsmannaleigum og beri ábyrgð á kjarasamningum.

„Í kröfugerð okkar í yfirstandandi kjaraviðræðum erum við með kröfu inni sem snýr að því að sektarákvæði verði sett inn í kjarasamninga, fjárupphæðir sem komi þá á fólk sem kemur svona fram. Við erum líka með það í kröfugerðinni okkar að heimildir atvinnurekenda til þess að gera leigu einhvern veginn part af launakjörum verði mjög takmarkaðar. Ef Samtök atvinnulífsins mæta okkur þarna og samþykkja þessi ákvæði inní kjarasamninga erum við komin langleiðina með að geta raunverulega farið að takast á við þetta grafalvarlega ástand,“ sagði Sólveig Anna.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að þessi atriði hafi verið rædd í samningaviðræðunum. Aðalatriðið séu reglur sem samtökin og Alþýðusamband Íslands hafi komið sér saman um.

„Við þurfum að ræða þetta á víðari vettvangi og heppilegur vettvangur er á milli Samtaka atvinnulífsins (SA) og Alþýðusambands Ísland (ASÍ). SA og ASÍ skiluðu í síðustu viku tillögum til félagsmálaráðuneytisins um úrbætur til þess að koma í veg fyrir brotastarfsemi á vinnumarkaði. SA og ASÍ hafa unnið mjög þétt að því marki á undanförnum árum, um það er enginn ágreiningur,“ segir Halldór Benjamín.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.