Salah tryggði Liverpool seiglusigur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mo Salah á fullri ferð.
Mo Salah á fullri ferð. vísir/getty

Liverpool komst aftur á sigurbraut í ensku úrvalsdeildinni með seiglusigri á Brighton á suðurströndinni.

Liverpool tapaði sínum fyrsta leik í deildinni í vetur í síðustu umferð þegar liðið beið lægri hlut gegn Manchester City. Liðið féll svo út úr ensku bikarkeppninni og þurfti því að svara fyrir sig í dag.

Það var ekki að sjá á upphafsmínútunum að leikmenn Liverpool væru komnir aftur í gírinn, leikurinn var afskaplega rólegur í fyrri hálfleik. Liverpool var með algjöra yfirburði í því að halda boltanum en vörn Brighton hélt vel og þeir komust ekki lönd né strönd í sókninni.

Fyrsta skotið á markið kom ekki fyrr en í upphafi seinni hálfleiks þegar Mohamed Salah átti fast skot í átt að marki en David Button var vandanum vaxinn í marki Brighton.

Stuttu seinna kom hins vegar fyrsta markið. Pascal Gross braut á Salah innan vítateigs og víti dæmt. Egyptinn fór sjálfur á punktinn og skoraði örugglega. Hann jafnaði þar með markafjölda Pierre-Emerick Aubameyang og Harry Kane í deildinni og eru þeir þrír markahæstir með 14 mörk.

Þrátt fyrir að mark væri komið í leikinn breyttist hann ekki mikið. Brighton fékk þó færi til þess að skora jöfnunarmark en ekkert dauðafæri.

Salah hefði getað gert út um leikinn undir lokin en hann hitti ekki á markið eftir sendingu frá Milner, frír við markteiginn. Lokastaðan 1-0 og Liverpool komið með sjö stiga forskot á toppi deildarinnar, Manchester City á þó leik til góða á mánudagskvöld.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.