Handbolti

Arnar Freyr hæstur og þyngstur hjá Íslandi en er langt frá stærsta Króatanum á vigtinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Freyr Arnarsson er hæstur og þyngstur í íslenska liðinu.
Arnar Freyr Arnarsson er hæstur og þyngstur í íslenska liðinu. vísir/getty
Ísland og Króatía eru með sömu meðalhæðina í liðum sínum samkvæmt opinberum leikmannalistum HM 2019 í handbolta en liðin hefja leik í dag í Ólympíuhöllinni í München klukkan 17.00.

Ísland hefur aldrei þótt stærsta lið heims en meðalhæð íslenska liðsins eru 192 sentimetrar. Aðeins einn í liðinu er yfir tveir metrar en það er Arnar Freyr Arnarsson, línumaður, sem telur tvo metra og einn sentimetra.

Alls eru þó tólf leikmenn hærri en 1,90 og meðalhæðin því 1,92 metrar. Arnór Þór Gunnarsson er minnstur í liðinu sem fyrr en hann er aðeins 1,81 metrar á hæð. Þrír leikmenn í íslenska liðinu eru undir 1,90 en auk Arnórs eru það Elvar Örn Jónsson og Ómar Ingi Magnússon.

Króatíska liðið er með þrjá leikmenn yfir tvo metra en aðeins sjö yfir 190 sentimetra. Hæstur er stórskyttan Luka Stepancic sem er 2,02 metrar en minnstur er hornamaðurinn ótrúlegi Zlatko Horvat sem er aðeins 1,79 metrar og verður því minnstur á vellinum í dag.

Kílóafjöldi Króata er aðeins meiri en meðalþyngd liðsins eru 96 kíló á móti 92 kílóum íslenska liðsins. Línumannströllið Zeljko Musa er 114 kíló og er þyngstur Króatanna en þyngstur í íslenska liðinu er Arnar Freyr Arnarsson sem er 106 kíló. Arnar á einn sentimetra á Musa þegar kemur að hæðarmun en Musa er átta kílóum þyngri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×