Hádramatískt sigurmark frá Winks á Craven Cottage

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Harry Winks var hetja Tottenham í dag
Harry Winks var hetja Tottenham í dag vísir/getty
Harry Winks tryggði Tottenham dramatískan sigur á Fulham í Lundúnaslag í ensku úrvalsdeildinni í dag. Leikmenn Tottenham skoruðu öll mörkin í 1-2 sigri.

Tottenham gælir enn við toppbaráttuna í ensku úrvalsdeildinni og því leikurinn í dag gegn liði í bullandi fallbaráttu algjör skyldusigur í huga flestra stuðningsmanna Tottenham. Leikurinn hefur þó tekið mun meira á taugarnar en von var á.

Fyrsta almennilega færi leiksins fengu heimamenn í Fulham þegar Ryan Babel neyddi Hugo Lloris í frábæra vörslu á 11. mínútu. Debus Odoi átti svo annað gott færi upp úr hornspyrnunni strax á eftir.

Það var því ekki gegn leiksins að heimamenn komust yfir. Fernando Llorente fær boltann í fótinn upp úr hornspyrnu inn í markteignum og þaðan fór hann framhjá Lloris og í netið.

Llorente var nálægt því að svara strax fyrir mistökin en skalli hans hitti ekki á markið. Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik, Aleksandar Mitrovic náði reyndar að setja boltann í netið en línuvörðurinn flaggaði hann rangstæðan.

Snemma í seinni hálfleik jafnaði Dele Alli metin fyrir Tottenham. Christian Eriksen á fyrirgjöf inn í teiginn, Alli beið á fjærstönginni og stangaði boltann í netið.

Eftir góðan fyrri hálfleik var ekki sjón að sjá til Fulham í seinni hálfleiknum og var Tottenham mikið meira með boltann og ógnaði sigurmarkinu mun meira heldur en heimamenn.

Danny Rose skaut í slána og Llorente skaut framhjá í dauðafæri en sigurmarkið lét á sér standa. Svo lengi að stjórarnir voru líklega byrjaðir að skipta stigunum með sér á hliðarlínunni.

En á síðustu sekúndum leiksins skoraði Harry Winks og tryggði Tottenham sigurinn. Varamaðurinn Georges-Kevin Nkoudou átti fyrirgjöf sem Harry Winks setur í netið. Tottenham stal sigrinum og hefur enn ekki gert jafntefli á tímabilinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira