Erlent

Fóru inn í hof þar sem konum hefur verið meinaður að­gangur öldum saman

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fjöldi kvenna kom saman í Kerala til að sýna konunum stuðning.
Fjöldi kvenna kom saman í Kerala til að sýna konunum stuðning. vísir/epa
Tvær indverskar konur skráðu nöfn sín í sögubækurnar í dag þegar þær urðu fyrstu konurnar til þess að fara inn í hof hindúa í ríkinu Kerala í suðurhluta Indlands, en öldum saman hefur konum á aldrinum tíu til fimmtíu ára verið meinaður aðgangur að hofinu. Ástæðan er sú að konur á „blæðingaaldri“ máttu ekki iðka trú sína í hofinu.

Dómstólar afléttu banninu á dögunum en eftir að konurnar höfðu farið inn í hofið tóku nokkrir prestar sig til við „hreinsa“ það og lokuðu því í nokkra klukkutíma til að hreinsa loftið eftir „mengandi“ viðveru kvennanna þar inni.

Konurnar tvær, þær Bindu og Kanaka Durga, reyndu að komast inn í hofið í síðasta mánuði en voru stöðvaðar af mótmælendum sem vildu halda banninu til streitu.

Myndband sem virtist sýna tvær konur fara inn í hofið var sýnt á sjónvarpsstöð í Indlandi. Yfirvöld í Kerala staðfestu síðar að konurnar hefðu farið þar inn. Sögðu þau að lögreglu hefði verið skipað að veita hverri konu alla þá vernd sem nauðsynleg er vilji hún fara inn í hofið.

Konurnar sem urðu þær fyrstu til að fara inn í hofið gerðu það í fylgd lögreglumanna. Þær fóru með bænir fyrir goðinu í hofinu, Ayyappa, sem er skírlífismaður.

Skírlífi hans er ástæða þess að heittrúaðir hindúar trúa því að konur sem eru yngri en 50 ára skuli ekki fara inn í hofið. Þeir óttast að konurnar freisti goðsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×