Innlent

Aldrei fleiri úr­komu­dagar í Reykja­vík og ekki færri sól­skins­stundir í 26 ár

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er úrkomusamt en nokkuð hlýtt ár að baki.
Það er úrkomusamt en nokkuð hlýtt ár að baki. vísir/hanna

Úrkomudagar í Reykjavík hafa aldrei verið fleiri en á síðasta ári þegar þeir voru 261. Næstflestir úrkomudagar voru árin 1953 og 1989, alls 255 talsins, en Trausti Jónsson, veðurfræðingur, greinir frá þessu á bloggsíðu sinni, Hungurdiskum.
 
Trausti segir að síðasta ár hafi verið úrkomusamt og nokkuð hlýtt. Þannig var hiti á landsvísu nærri meðallagi síðustu tíu ára en þau ár voru sérstaklega hlý miðað við það sem almennt gengur og gerist hérlendis.

„Meðalhiti í Reykjavík var 5,1 stig og er árið eitt þeirra 30 hlýjustu (af 148) frá upphafi mælinga. Meðalhiti á Akureyri var 4,6 stig og það 14.hlýjasta frá upphafi mælinga. Austur á Dalatanga var ársmeðalhitinn 5,2 stig og hefur aðeins 3 sinnum verið hærri,“ segir Trausti.

Úrkoma í Reykjavík mældist svo 1059,2 millimetrar og hefur aðeins sjö sinnum mælst meiri úrkoma frá upphafi samfelldra mælinga árið 1921 en síðast var úrkoman meiri árið 2007.

„Þetta er tæpum þriðjungi umfram meðallag. Úrkomudagar voru óvenjumargir, 261 og hafa aldrei verið fleiri. Næstflestir voru úrkomudagarnir árið 1953 og 1989, 255 talsins. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða fleiri voru 183 og hafa aðeins tvisvar verið fleiri, 1953 og 1921. Á Akureyri mældist úrkoman 687,2 mm eða um 40 prósent umfram meðallag og hefur aðeins tvisvar mælst meiri á einu ári, 2014 og 1989. Úrkomudagar voru einnig óvenjumargir á Akureyri, 209, og hafa aðeins þrisvar verið fleiri á einu ári, flestir 224 árið 2014,“ segir í færslu Trausta.

Þá hafa ekki mælst færri sólskinsstundir í Reykjavík í 26 ár eða síðan 1992. Voru þær 1163 á nýliðnu ári, rúmlega 100 færri en í meðalári.

„Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1016 og er það í tæpu meðallagi. Alhvítir dagar voru 38 á árinu í Reykjavík og hafa ekki verið jafnfáir frá 2010. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir 98, um 20 færri en í meðalári,“ segir Trausti á bloggsíðu sinni sem lesa má hér.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.