Innlent

Lilja skipar flokksbróður nýjan ráðu­neytis­stjóra

Atli Ísleifsson skrifar
Páll Magnússon hefur að undanförnu starfað sem bæjarritari Kópavogs.
Páll Magnússon hefur að undanförnu starfað sem bæjarritari Kópavogs. Stjórnarráðið

Páll Magnússon hefur verið ráðinn í embætti ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneyti. Skipað er í embættið til fimm ára frá og með 1. desember næstkomandi.



Páll var lengi virkur í Framsóknarflokknum og hefur áður starfað sem aðstoðarmaður ráðherra, en síðustu ár sem bæjarritari Kópavogs.



Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að þrettán hafi sótt um stöðuna. Sérstök hæfnisnefnd mat fjóra umsækjendur mjög hæfa til þess að gegna stöðunni og í kjölfarið boðaði ráðherra þá í viðtal, þar sem ítarlega hafi verið farið ofan í einstaka þætti starfsins og sýn umsækjenda.



„Var það mat ráðherra, að Páll Magnússon væri hæfastur umsækjenda til að stýra ráðuneytinu Páll hafi fjölþætta menntun og reynslu af stjórnunarstörfum hjá hinu opinbera,“ segir í tilkynningunni.



Eftirtaldir aðilar sóttu um starfið:



Frið­rik Jóns­son, deild­ar­stjóri

Guð­mundur Sig­urðs­son, pró­fessor

Haf­dís Helga Ólafs­dótt­ir, skrif­stofu­stjóri

Helgi Gríms­son, sviðs­stjóri

Hlynur Sig­ur­sveins­son, hag­fræð­ingur

Ingi­leif Ást­valds­dótt­ir, skóla­stjóri

Jón Vil­berg Guð­jóns­son, skrif­stofu­stjóri

Kar­itas H. Gunn­ars­dótt­ir, skrif­stofu­stjóri 

Magnús Ein­ars­son, fram­halds­skóla­kenn­ari

Mar­grét Björk Svav­ars­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri og stjórn­un­ar­ráð­gjafi

Mar­grét Hall­gríms­dótt­ir, þjóð­minja­vörður

Páll Magn­ús­son, bæj­ar­rit­ari

Þor­steinn Gunn­ars­son, sveit­ar­stjóri.



Í tilkynningunni segir að Páll hafi lokið meistaragráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaraprófi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands.



„Hann er auk þess með BA-gráðu í guðfræði frá sama skóla. Frá árinu 2006 hefur hann starfað sem sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og bæjarritari hjá Kópavogsbæ, stýrt umbótum á stjórnsýslu bæjarins og m.a. haft forgöngu um innleiðingu gæðakerfis. Hann starfaði áður í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu um sjö ára skeið, sem aðstoðarmaður ráðherra. Páll sat í stjórn Landsvirkjunar frá árinu 2007 til 2011, þar af sem formaður frá 2007 til 2008, var varaformaður útvarpsráðs og síðar stjórnar RÚV ohf. frá 2003 til 2008. Hann var stjórnarformaður Fjárfestingastofu Íslands frá 1999 til 2006 og á sama tímabili varamaður í stjórn Norræna fjárfestingabankans (NIB). Á árunum 1990-1998 var hann varabæjarfulltrúi í Kópavogi og varaþingmaður frá 1999 til 2007.



Páll hefur talsvert sinnt málefnum barna, m.a. með innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hjá Kópavogsbæ, en það verkefni hefur leitt til samstarfs bæjarins við UNICEF – barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Hann hefur setið í stjórnum Vímulausrar æsku, Umhyggju – félags langveikra barna og Sjónarhóls - ráðgjafarmiðstöðvar,“ segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×