Innlent

Kjörstjórn samþykkir ekki framboð Heiðveigar Maríu

Jakob Bjarnar skrifar
Heiðveig María reynir að tala um fyrir kjörstjórninni en án árangurs. Hún efast um hæfi Guðmundar Hallvarðssonar og Jónasar Þórs Jónassonar.
Heiðveig María reynir að tala um fyrir kjörstjórninni en án árangurs. Hún efast um hæfi Guðmundar Hallvarðssonar og Jónasar Þórs Jónassonar. visir/vilhelm
Hinum svokallaða B-lista sem vildi bjóða fram til stjórnarnar í Sjómannafélagi Íslands barst í gær úrskurður kjörstjórnar félagsins um lögmæti þess. Kjörstjórn telur framboðið ekki uppfylla skilyrði. Þetta þýðir þá að A-listi sem Bergur Þorkelsson, gjaldkeri félagsins, fer fyrir telst sjálfkjörinn. Aftur.

Væringar innan Sjómannafélags Íslands eiga sér orðið býsna langa sögu, með ótal vendingum en eftir niðurstöðu Félagsdóms féllst stjórn á að endurtaka kosningar en Bergur var sjálfkjörinn formaður á síðasta aðalfundi en þá hafði B-listi verið úrskurður ómarktækur og Heiðveig María var rekin úr félaginu. Jónas gaf út harðorða yfirlýsingu, fordæmdi fréttaflutning og tilkynnti að hann gæfi ekki kost á sér aftur til formennsku.

Segir Jónas og Guðmund vanhæfa

Heiðveig María telur þetta fráleita niðurstöðu sem byggi á huglægu mati kjörnefndar. Auk þess sem hún leyfir sér að efast um hæfi tveggja af þeim þremur sem í kjörnefnd sitja.

Heiðveig María segir það skjóta skökku við að Guðmundur Hallvarðsson, sem er á A-lista, dæmi jafnframt um lögmæti framboðs B-lista. Hún efast um hæfi hans.Fbl/Heiða
„Guðmundur Hallvarðsson er á A-lista og situr í kjörstjórn sem tekur afstöðu til málsins?! Hann er fyrrverandi formaður félagsins og situr á A-lista í trúnaðarmannaráði.“

Heiðveig María segir að sér sé ekki kunnugt um að hann sé í neinni tiltekinni starfsgrein, sem þó er úrslitaatriði í niðurstöðu kjörstjórnar.

„Nema ellilífeyrisþegar teljist sérstök stétt?“

Hún vill meina að samkvæmt eigin röksemdafærslu ætti þá listi A að vera ólöglegur. Þá bendir hún jafnframt á að formaður kjörstjórnar sé Jónas Þór Jónasson lögmaður, en hann var verjandi SÍ í máli Heiðveigar gegn félaginu. En dómur Félagsdóms var henni í vil og var SÍ dæmt í stjórnvaldssektir vegna þess hvernig staðið var að brottrekstri hennar úr félaginu. Það hljóti að hafa áhrif á hæfi hans einnig.

 

B-listafólk ekki orðið við tilmælum kjörstjórnar

Í niðurstöðu kjörstjórnar um lögmæti framboðs Heiðveigar Maríu kemur fram að þeim sem að framboðinu standa hafi verið veitt svigrúm til að lagfæra meinbugi sem kjörstjórn taldi vera á listanum og safna undirskriftum á nýjan leik.

Bergur Þorkelsson telst því enn og aftur sjálfkjörinn formaður SÍ.visir/vilhelm
„Þar sem B-listi er að mati kjörstjórnar samkvæmt framansögðu ekki til samræmis við afdráttarlaus fyrirmæli 16. gr. laga félagsins um skipan í trúnaðarmannaráð félagsins og hefur ekki viljað bæta úr annmörkum sem á listanum eru, hefur kjörstjórn enga aðra úrkosti en að líta svo á að um ólögmætt framboð sé að ræða.

Af framangreindu leiðir, að aðeins einn lögmætur listi, A-listi stjórnar félagsins, hefur borist til stjórnar, trúnaðarmannaráðs og matsveinadeildar, sbr. c-liður 5. mgr. 16. gr. laga félagsins, og úrskurðar kjörstjórn því að þeir félagsmenn sem þar eru tilnefndir teljast vera sjálfkjörnir í stjórn félagsins, stjórn matsveinadeildar og trúnaðarmannaráð, til samræmis við önnur ákvæði laga félagsins.“

Heiðveig telur aðspurð ekki fráleitt að ætla að þarna hafi myndast eigendafélag sem gerir hvað sem er til að hleypa engum utanaðkomandi að málum.

„Við óskuðum eftir fundi með kjörstjórn eftir að við fengum þetta í andlitið, en því var hafnað. Þeir telja sig hafa lokið störfum.“

Lögsókn eða úrsögn úr félaginu til athugunar

Heiðveig segir að huglægt mat þeirra í kjörstjórn hljóti að liggja til grundvallar þessari niðurstöðu, sem lúti að túlkun þeirra á óljósum lögum um að allar starfsgreinar eigi að vera á lista. Það komi hvorki fram í leiðbeiningum né lögum félagsins með skýrum hætti. 

Jónas Garðarsson, fráfarandi formaður Sjómannafélags Íslands, sem eldað hefur grátt silfur við Heiðveigu Maríu, mætir í Félagsdóm í máli hennar á hendur félaginu.visir/vilhelm
„Þetta er túlkunaratriði kjörstjórnar, sem við erum ósammála. Höfum lagt fram rök.“

Heiðveig segir að hún og félagar hennar séu nú að skoða hvað taki við. Hvort stjórn félagsins verði stefnt enn á ný og þá hvort það eigi fremur erindi til Félagsdóms eða almennra dómstóla. Þá kemur einnig til greina að hópurinn segi sig úr félaginu. Hversu stór hópur það yrði liggur ekki fyrir en víst er að það yrði blóðtaka fyrir félagið, að missa þau félagsgjöld.„Það er bara verið að meta stöðuna.

Við viljum standa vörð um lýðræði og réttlæti. Við erum að berjast fyrir því að fá að bjóða fram, fjandinn hafi það.

 

Heiðveig María og lögmaður hennar, Kolbrún Garðarsdóttir. SÍ var dæmt til að greiða í ríkissjóoð 1,5 milljónir króna vegna þess hvernig staðið var að brottrekstri Heiðveigar úr félaginu.visir/vilhelm
Við erum eingöngu að bjóða fram til að gefa öllum félagsmönnum kost á að kjósa og þeirri niðurstöðu munum við una. En það er alltaf girt fyrir að við getum boðið fram.“

Eru með farmann á listanum en það dugi ekki til

Heiðveig segir alla sammála um að lögin séu óskýr. Og þegar túlkunaratriði eru vafasöm, þá beri að túlka það framboðinu og lýðræðinu í hag.

„Þeir segja framboðið ólögmætt vegna þess að enginn á listanum sé starfandi samkvæmt kjarasamningi Eimskipa og Samskipa?! Hvernig í veröldinni áttum við að vita að það ætti að stilla þessu þannig upp? Við erum með farmann á listanum, en hann starfar bara ekki samkvæmt þeim kjarasamningum sem eru í gildi hjá Eimskip og Samskip. Starfar samkvæmt kjarasamningi farmanna. Þetta heldur engu vatni.“

Vísir reyndi ítrekað að ná tali af Jónasi Þór og Guðmundi Hallvarðssyni, vegna efasemda Heiðveigar um hæfi þeirra en án árangurs.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.