Innlent

Segja Houssin enn eitt fórnar­lamb skilnings­leysis þeirra sem bera á­byrgð á mál­efnum flótta­fólks

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Stoðdeild ríkislögreglustjóra framkvæmir brottvísun eftir ákvörðun Útlendingastofnunar þar um. Stofnunin heyrir undir dómsmálaráðherra.
Stoðdeild ríkislögreglustjóra framkvæmir brottvísun eftir ákvörðun Útlendingastofnunar þar um. Stofnunin heyrir undir dómsmálaráðherra. vísir/eyþór
Solaris, hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, fordæma vinnubrögð við brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd í tilkynningu sem þau sendu frá sér í kvöld.

Tilefnið er að í gær var Houssin Bsraoi, ungur hælisleitandi sem varð fyrir líkamsárás á Litla-Hrauni í síðasta mánuði, fluttur úr landi en honum hafði verið synjað um hæli hér. Kærunefnd útlendingamála á þó enn eftir að taka afstöðu til endurupptökubeiðni hans.

Í tilkynningu frá Solaris segir að á undanförnum vikum hafi félaginu borist margar frásagnir af brottvísunum umsækjenda um alþjóðlega vernd sem hafi ekki verið í samræmi við verkferla stjórnvalda. Ítrekað gerist stjórnvöld sek um ómannúðleg og óásættanleg vinnubrögð, brot á mannréttindum fólks á flótta og brot á verkferlum stjórnvalda við fylgd umsækjenda um vernd úr landi eftir synjun.

„Ítrekað hafa einstaklingar og fjölskyldur verið sóttar án nokkurs fyrirvara og sendar úr landi, framkvæmdin hefur verið ómannúðleg og ekki í neinu samstarfi við viðkomandi og/eða talsmenn, td. lögfræðinga þeirra.

Houssin, ungur drengur frá Marokkó, er enn eitt fórnarlamb skilningsleysis þeirra sem bera ábyrgð á málefnum flóttafólks og hælisleitenda, framkvæmd málsmeðferða og brottvísana. Yfirvöld hafa síendurtekið brugðist Houssin, sem m.a. varð fyrir hrottalegu ofbeldi í fangelsi, nú síðast með því að senda hann úr landi í gær án nokkurs fyrirvara og samvinnu auk brots á upplýsingaskyldu. Slík vinnubrögð eru ómannúðleg og algjörlega óásættanleg og ber að fordæma.

Stefnuleysi stjórnvalda í málefnum fólks á flótta er mikið áhyggjuefni. Stjórn Solaris skorar á alla ábyrgðaraðila, ríkislögreglustjóra, útlendingastofnun, dómsmálaráðherra og stjórnvöld að bregðast strax við því ófremdarástandi sem upp virðist komið í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi. Móta þarf stefnu í málaflokknum. Endurskoða og samræma þarf verkferla og sjá til þess að þeim sé ávallt framfylgt. Endurskoða þarf vinnubrögð Útlendingastofnunar og annarra viðeigandi aðila til þess að tryggja mannúð og mannlega reisn og að mannréttindi fólks á flótta séu virt,“ segir í tilkynningu Solaris sem sjá má í heild sinni hér.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.