Viðskipti innlent

Ragnar þarf að reiða fram 25 milljónir til að halda Hótel Adam

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hótel Adam er merkt sem þriggja stjörnu hótel. Það er staðsett við hlið Krambúðarinnar á Skólavörðustíg í miðbæ Reykjavíkur.
Hótel Adam er merkt sem þriggja stjörnu hótel. Það er staðsett við hlið Krambúðarinnar á Skólavörðustíg í miðbæ Reykjavíkur. visir/Anton brink
Íslandsbanki hefur farið fram á að húsið á Skólavörðustíg 42 verði sett á nauðungarsölu. Húsið er í eigu Ragnars Guðmundssonar sem rekur Hótel Adam í húsinu sem Vísir fjallaði töluvert um í febrúar fyrir tveimur árum í framhaldi af því að gestir vöktu athygli á því að varað væri við því að drekka vatn úr krananum.

Viðskiptablaðið vekur athygli á sölunni í dag og vísar í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Þar kemur fram að kröfur bankans hljóði upp á tæplega 25 milljónir króna. Beiðnin um nauðungarsölu verði tekin fyrir á skrifstofu Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í Hlíðarsmára í Kópavogi þann 14. júní hafi kröfurnar ekki verið greiddar.

Blaðamaður Vísis gisti eina nótt á Hótel Adam í febrúar 2016. Heimsóknin var eftirminnileg og vakti margar spurningar. Bókun hótelsins var skrautleg, lykillinn var ranglega merktur, margra ára gömul símaskrá og klósettrúlla biðu gestsins, innstungur voru illa farnar og latexhanski var yfir reykskynjaranum svo fátt eitt sé nefnt.

Vísir gerði fjölmargar tilraunir til að fá Ragnar Guðmundsson, eiganda hótelsins, í viðtal á sínum tíma, en hann vildi ekki tjá sig. Var sama hvort hringt var í Ragnar, honum sendur tölvupóstur eða mætt á staðinn.

Umfjöllun Vísis má sjá hér að neðan undir fyrirsögninni: „Ég drekk úr krananum“ sem voru orð starfsmann hótelsins sem blaðamaður ræddi við.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×