Innlent

Nýr vefur um loftgæði opnaður

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Loftgæði á landinu eru mjög góð víðast hvar nema í Grindavík ef marka má upplýsingar á vef Umhverfisstofnunar.
Loftgæði á landinu eru mjög góð víðast hvar nema í Grindavík ef marka má upplýsingar á vef Umhverfisstofnunar. Loftgæði.is

Umhverfisstofnun hefur tekið í notkun nýja heimasíðu sem miðlar upplýsingum um loftgæði. Hlekkurinn á síðuna er loftgæði.is „og já, það má nota íslenska stafi í slóðina!“ segir í tilkynningu frá stofnuninni.

Björn Þorláksson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar, segir í frétt á heimasíðu UST að nýja síðan sé mun notendavænni en sú eldri. Helsti munurinn sé að strax á upphafssíðunni fáist yfirlit um loftgæði á öllum mælistöðvum á landinu.

„Litakóði er notaður til að sýna ástand loftgæða á hverri mælistöð þannig að almenningur á auðveldara með að átta sig á stöðunni. Styrkur mengunarefna á hverri stöð ræður litnum á viðkomandi stöð á Íslandskortinu. Notendur geta svo með einföldum hætti skoðað nánar mæligildin fyrir viðkomandi stöð.“

Gögnum um loftgæði á Íslandi er jafnframt miðlað á Evrópska síðu þar sem má sjá stöðu loftgæða á Íslandi í samanburði við önnur lönd í Evrópu.

Opnum síðunnar er fyrsta skrefið í að miðla upplýsingum úr nýju loftgæðaupplýsingakerfi (Airviro) sem starfsfólk Umhverfisstofnunar hefur unnið að uppsetningu á síðusta árið.

„Á næstu mánuðum munu bætast við fleiri valmöguleikar á síðuna og ber þá helst að nefna dreifilíkan loftmengunarefna á völdum svæðum á landinu. Dreifilíkanið reiknar út styrk loftmengunar hverju sinni út frá gagnagrunni um losun loftmengunarefna og veðuraðstæðum hverju sinni. Upplýsingar um styrk loftmengunarefna í mælistöðvum segja í raun aðeins til um stöðu loftgæða á þeim punkti þar sem mælistöðin er staðsett en með dreifilíkani verður hægt að sjá hvernig loftmengun dreifist undan vindi. Því verður hægt að sjá mismunandi styrk loftmengunar á öllu því svæði sem dreifilíkanið sýnir. Þannig verður til dæmis hægt að sjá gróflega hver styrkur loftmengunarefna er á öllu höfuðborgarsvæðinu.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.