Innlent

Ólafur Ragnar vill Tortímandann að hringborðinu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson er þungavigtarmaður þegar kemur að umræðu um norðurslóðir og framtíð þeirra í tengslum við loftslagsbreytingar.
Ólafur Ragnar Grímsson er þungavigtarmaður þegar kemur að umræðu um norðurslóðir og framtíð þeirra í tengslum við loftslagsbreytingar.
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, hvetur stórleikarann og fyrrverandi ríkisstjórann Arnold Schwarzenegger til að sækja Hringborð norðurslóða í Hörpu á næsta ári. Á ráðstefnunni, sem alla jafna fer fram í október, ræðir fjölþjóðlegur hópur fólks um framtíð norðurheimskautasvæðisins og þær áskoranir sem norðurskautið stendur frammi fyrir vegna loftslagsbreytinga.

Allt frá því að Schwarzenegger sagði skilið við ríkisstjóraembættið í Kaliforníu hefur hann verið ötull talsmaður róttæktra aðgerða í loftslagsmálum. Þannig sótti hann lofstlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP24, sem fram fór í pólsku borginni Katowice í upphafi mánaðarins. Á ráðstefnunni gerði fyrrverandi leikarinn stutt myndbandsinnslag þar sem hann hvatti fundargesti til að samþykkja loftslagsreglubókina sem lá fyrir þinginu.

Sjá einnig: Tortímandinn ætlar að stefna olíurisum fyrir manndráp með loftslagsbreytingum

Í myndbandinu sagði hann samþykktina vera nauðsynlega því hann telji mikilvægt að Parísarsamkomulaginu frá árinu 2015 verði endanlega ýtt úr vör. Hvort myndbandshvatning Schwarzenegger, sem sjá má hér að neðan, hafi gert útslagið er ekki vitað en umrædd reglubók var samþykkt af fulltrúum þeirra 195 ríkja sem sóttu COP24 í Katowice.

Um 2000 manns frá 50 til 60 löndum hafa sótt Arctic Circle undanfarin ár. Þingið fer árlega fram í Hörpu.Arctic circle
Myndbandið fór ekki framhjá Ólafi Ragnari, sem deildi því á Twitter-síðu sinni í dag. Við færslu sína skrifar Ólafur að réttast væri að bjóða Schwarzenegger og öðru baráttufólki í loftslagsmálum á Hringborð norðurslóða, ráðstefnuna sem Ólafur fer fyrir. Allir þeir sem átta sig á því að loftslagsbreytingar leiki norðurslóðir grátt séu velkomnir í Hörpu í október.

Engin svör hafa borist frá Schwarzenegger og því ekki vitað á þessari stundu hvort hann þekkist boð Ólafs Ragnars. Þeir hafa hið minnsta einu sinni hist áður, það var árið 1999 í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Þar sóttu þeir báðir sérstaka móttöku vegna Ólympíuleika fatlaðra sem fram fóru í ríkinu og skiptust þeir þar á nokkrum orðum. Í samtali við blaðamann Morgunblaðsins sagði Ólafur að „Schw­arzenegger hefði lýst yfir ánægju sinni með að ís­lensku kepp­end­urn­ir hefðu getað mætt til leiks og að vera þeirra sýndi að Íslend­ing­ar mætu starf­semi sam­taka Special Olympics mjög mik­ils.“ 

Þar að auki sagði Schwarzenegger að það væri til marks um „sam­stöðu ís­lensku þjóðar­inn­ar þegar for­seti henn­ar fylgdi lönd­um sín­um til keppni, því það þýddi að ís­lenska þjóðin öll styddi at­b­urð sem þenn­an.“ Hvort Schwarzenegger eða Ólafur Ragnar muni eftir þessu samtali í dag, næstum tveimur áratugum síðar, skal þó ósagt látið.

Færslu Ólafs, og myndband Tortímandans, má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Loftslagsbreytingar lumbra á norðurskautinu

"Við erum ekki nálægt því að vera tilbúin með verkefni, áætlanir og stefnumörkun til þess að byggja upp þol fyrir þessum breytingum,“ segir fyrrum vísindaráðgjafi Baracks Obama fyrrverandi Bandaríkjaforseta.

Katrín segir Hringborð norðurslóða hafa breytt umræðunni

Forsætisráðherra segir Hringborð norðurslóða, eða Arctic Circle ráðstefnuna hafa breytt umræðunni um norðurheimskautið. Mikilvægt sé að vígvæða ekki norðurheimskautið og líta á það sem svæði alls heimsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.