Erlent

Per­sónu­upp­lýsingum norður-kóreskra flótta­manna stolið

Atli Ísleifsson skrifar
Norður-Gyeongsang-miðstöðin er ein 25 miðstöðva sem suður-kóresk yfirvöld starfrækja til að aðstoða þá sem flúið hafa Norður-Kóreu og komist suður yfir landamærin, við að aðlagast nýju samfélagi.
Norður-Gyeongsang-miðstöðin er ein 25 miðstöðva sem suður-kóresk yfirvöld starfrækja til að aðstoða þá sem flúið hafa Norður-Kóreu og komist suður yfir landamærin, við að aðlagast nýju samfélagi. Getty
Persónuupplýsingum um þúsund Norður-Kóreumanna sem flúið hafa land hefur verið stolið eftir að ráðist var á tölvukerfi flóttamannamiðstöðvar í Suður-Kóreu. Frá þessu greinir ráðuneyti sameiningarmála í Suður-Kóreu.

Í frétt BBC segir að vírus hafi fundist í einkatölvu í miðstöðinni. Lekinn er sagður fyrsti stóri lekinn þegar kemur að persónuupplýsingum norður-kóreskra flóttamanna. Ekki hafa verið gefnar upplýsingar um hver stóð að baki árásinni.

Norður-Gyeongsang-miðstöðin er ein 25 miðstöðva sem suður-kóresk yfirvöld starfrækja til að aðstoða þá sem flúið hafa Norður-Kóreu og komist suður yfir landamærin, við að aðlagast nýju samfélagi. Telja flóttamennirnir um 32 þúsund manns.

Alls hafa 997 norður-kóreskir flóttamenn nú fengið skilaboð um að persónuupplýsingum þeirra hafi verið stolið – nöfn, fæðingardagar og heimilisföng.

Ekki liggur fyrir hvaða áhrif þetta kann að hafa, þó að fréttaskýrendur segja að þetta kunni að skapa hættu fyrir fjölskyldur flóttamannanna sem enn búa í Norður-Kóreu.

Yfirvöld í Norður-Kóreu vita ekki um alla þá sem flúið hafa landið og hafa margir þeirra verið skráðir sem „horfnir“ og aðrir látnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×