Handbolti

PSG vill Guðjón Val í stað Gensheimer

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðjón í leik með Ljónunum.
Guðjón í leik með Ljónunum. vísir/getty

Franski miðillinn Le Parisien greinir frá því á vefsíðu sinni í kvöld að Guðjón Valur Sigurðsson sé á óskalista franska stórliðsins PSG.

Guðjón Valur, sem spilar nú með Rhein-Neckar Löwen, er líklegur arftaki Uwe Gensheimer sem er á sínu síðasta ári í PSG en hann er líklegur til að snúa aftur til Löwen þar sem hann spilaði áður en hann færði sig yfir til Frakklands.

Genzheimir er sagður ætla að ákveða sig eftir HM í janúar en leiðir hans eru taldar liggja aftur til Löwen þar sem hann spilaði í þrettán ár. Það mætti því segja að félögin skipti á vinstri hornamönnum.

Guðjón Valur er á sínu síðasta ári á samningi sínum hjá Löwen en samkvæmt frétt franska miðilsins þá gæti íslenski landsliðsfyrirliðinn gengist undir læknisskoðun hjá franska stórveldinu í næstu viku. Samningurinn tæki þó gildi sumarið 2019.

PSG hefur ekki tapað leik það sem af er tímabili í Frakklandi og er á leið áfram í Meistaradeildin. Franski risinn yrði því enn eitt stórveldið sem hinn 39 ára gamli Guðjón Valur myndi spila með á sínum magnaða ferli.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.