Lífið

Tveir fyrr­verandi sigur­vegarar taka þátt í Melodi­festiva­len á næsta ári

Atli Ísleifsson skrifar
Anna Bergendahl söng lagið This Is My Life árið 2010.
Anna Bergendahl söng lagið This Is My Life árið 2010. Getty/Ragnar Singsaas

Að minnsta kosti tveir fyrrverandi fulltrúar Svía í Eurovision munu taka þátt í Melodifestivalen í byrjun næsta árs þar sem Svíar velja fulltrúa sinn fyrir Eurovision í Tel Aviv í Ísrael í maí næstkomandi.

Aftonbladet segir frá því í dag að hin 26 ára Anna Bergendahl, sem keppti fyrir hönd Svíþjóðar árið 2010, muni eiga lag í Melodifestivalen sem hefst í byrjun febrúar.

Sérstaka athygli vakti þegar lag hennar, This Is My Life, komst ekki upp úr undanúrslitariðlinum í keppninni 2010, en Svíar leggja jafnan mikið í keppnina og var þetta í fyrsta og eina skiptið sem framlag Svía keppti ekki á úrslitakvöldinu frá því að núverandi fyrirkomulag í Eurovision var tekið upp.

Áður höfðu sænskir fjölmiðlar greint frá því að sveitin Arvingarna munu einnig eiga lag í Melodifestivalen, en þeir áttu framlag Svíþjóðar í Eurovision árið 1993 þegar þeir sungu Eloise.

Alls er búið að greina frá átján af alls 28 sem munu eiga lag í Melodifestivalen á næsta ári. Sænska sjónvarpið mun kynna þátttakendur á blaðamannafundi 27. nóvember næstkomandi.

Eurovision fer fram í Tel Aviv dagana 14., 16., og 18. maí á næsta ári.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.