Erlent

Les Moonves hættur hjá CBS eftir fleiri ásakanir um kynferðisbrot

Samúel Karl Ólason skrifar
Les Moonves.
Les Moonves. Vísir/AP

Les Moonves hefur látið af störfum sem forstjóri fjölmiðlarisans CBS eftir ásakanir um ósæmilega kynferðislega hegðun. Afsögn hans tekur gildi tafarlaust. Ásakanir á hendur Moonves birtust fyrst í blaðinu the New Yorker í júlí og sex bættust við á sunnudag. Moonves neitar öllum slíkum ásökunum og segir þær nýjustu vera ógeðfelldar.

Í yfirlýsingu frá CBS segir að fyrirtækið og Moonves muni gefa 20 milljónir dollara, eða um 2,2 milljarða íslenskra króna til hópa sem styrkja MeToo hreyfinguna.

Alls sökuðu tólf konur Monnves um kynferðisbrot. Meðal ásakana er að hann hafi þvingað minnst eina til munnmaka og að hafa bæði kysst þær og snert án samþykkis. Þá á hann að hafa áreitt þær á vinnutíma og brugðist ókvæða við þegar þær tóku illa í hegðun hans. Einhver hinna meintu brota munu hafa átt sér stað þegar Moonves var einn af æðstu yfirmönnum Warner Bros.

Þrjátíu þáverandi og fyrrverandi starfsmenn CBS sögðu Moonves hafa stuðlað að vinnuumhverfi sem gerði lítið úr kynferðislegri áretni. Þeir sögðu starfsmenn sem hafi orðið uppvísir af slíkri hefðun hafa fengið stöðuhækkanir og þolendum hafi verið greitt fyrir þagmælsku.

Sjá einnig: Blaðamaðurinn sem afhjúpaði Weinstein opinberar ásakanir á hendur æðsta stjórnanda CBS

Eftir að fyrstu sex konurnar sökuðu Moonves um að hafa brotið á sér réði stjórn CBS lögfræðinga til að rannsaka ásakanirnar. Þeirri rannsókn er ekki lokið og hefur stjórn CBS ákveðið að ekki verði farið út í hvað Moonves verði greitt fyrir að láta af störfum fyrr en rannsókninni lýkur. Búist er við því að hann muni fá margar milljónir dala, samkvæmt Washington Post.

Þá verður helmingi stjórnar CBS skipt út og hafa þrjár konur þegar verið ráðnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.