Lífið

Rúrik nýr velgjörðarsendiherra: Guðni og Eliza komast ekki á leikinn annað kvöld

Stefán Árni Pálsson skrifar
Rúrik á Hótel Nordica.
Rúrik á Hótel Nordica. vísir/baldur
Rúrik Gíslason landsliðsmaður í fótbolta er nýr velgjörðarsendiherra SOS Barnaþorpanna á Íslandi og skrifaði hann undir samning þess efnis í dag á Hótel Hilton á Suðurlandsbraut í dag.

Rúrik segist vilja leggja sitt af mörkum við að vekja athygli á starfi samtakanna sem útvega munaðarlausum og yfirgefnum börnum heimili og fjölskyldu. SOS Barnaþorpin eru barnahjálparsamtök sem reka 572 barnaþorp í 126 löndum. Í þeim eru um 90 þúsund börn sem fá öllum sínum grunnþörfum mætt og standa samtökin einnig fyrir fjölda annarra verkefna sem hjálpa sárafátækum barnafjölskyldum í nágrenni barnaþorpanna.

„Rúrik hefur áður látið sig góðgerðarmálefni varða og eftir að við leituðum til hans sýndi hann mikinn og einlægan áhuga á samstarfi við okkur. Það er okkur mikið gleðiefni að Rúrik hafi þegið boð okkar um að gerast SOS sendiherra,“ segir Hans Steinar Bjarnason, upplýsingafulltrúi SOS Barnaþorpanna.

Rúrik er þrítugur og á að baki 50 A-landsleiki í fótbolta fyrir Ísland. Hann slæst í hóp með fríðu föruneyti þriggja annarra velgjörðarsendiherra SOS Barnaþorpanna á Íslandi en fyrir í því teymi eru forsetafrúin Eliza Reid, söngkonan Hera Björk Þórhallsdóttir og ævintýrakonan Vilborg Arna Gissurardóttir. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands mætti á svæðið í dag og tilkynnti Rúriki að hann kæmist því miður ekki á leik Íslands og Belga í Þjóðadeildinni á Laugardagsvellinum annað kvöld. 

Hér að neðan má sjá myndefni sem Baldur Hrafnkell Jónsson, tökumaður Stöðvar 2, fangaði frá viðburðinum í dag. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×