Handbolti

„Draumur síðan í æsku“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Sigþór Gunnar tryggði KA sigur.
Sigþór Gunnar tryggði KA sigur. Heimasíða KA
Skyttan unga, Sigþór Gunnar Jónsson, reyndist hetjan í Akureyrarslagnum í Olís-deild karla í kvöld þegar KA lagði Akureyri Handboltafélag að velli með minnsta mun, 28-27.

Þegar rúm mínúta lifði leiks tóku KA-menn leikhlé og lögðu á ráðin fyrir lokasókn sína í leiknum. Hún endaði með því að Sigþór braut sér leið í gegnum vörn Akureyrar og skoraði framhjá Marius Aleksejev í marki Akureyrar. Hann hikaði hvergi og var eðlilega í sigurvímu í leikslok.

„Það er ekki til betri tilfinning. Stútfullt hús og þetta er bara draumur síðan í æsku.“

„Maður er í þessu til þess (að taka lokaskotið). Það þýðir ekkert að hika við það," segir Sigþór.

KA-menn höfðu frumkvæðið framan af en um miðbik síðari hálfleiks komst Akureyri á bragðið og náði forystunni á lokamínútunum en Sigþór kveðst ekki hafa verið orðinn smeykur.

„Nei það fór ekkert um okkur því við KA-menn gefumst aldrei upp,“ segir Sgiþór.

Flestir sérfræðingar spá KA-manni falli úr deildinni en Sigþór hefur engar áhyggjur af því.

„Ég tel að við getum gert góða hluti. Þetta er ógeðslega spennandi og við munum gefa okkur alla í þetta. Það er ekki hægt að biðja um meira en það,“ sagði Sigþór að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×