Erlent

Kalifornía ætlar að framleiða allt rafmagn án kolefnis fyrir 2045

Kjartan Kjartansson skrifar
Nýju lögin gera ráð fyrir að allt rafmagn verði framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum eins og sólarorku fyrir miðja öldina.
Nýju lögin gera ráð fyrir að allt rafmagn verði framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum eins og sólarorku fyrir miðja öldina. Vísir/Getty

Stjórnvöld í Kaliforníu í Bandaríkjunum hafa sett sér það markmið að öll raforkuframleiðsla í ríkinu verði kolefnisfrí fyrir árið 2045. Lög sem samþykkt voru þar gera ráð fyrir að orkufyrirtæki þurfi að framleiða 60% orku með endurnýjanlegum hætti fyrir árið 2030.

Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu, hét því að ríkið myndi ná markmiðum Parísarsamkomulagsins og að halda áfram að afkolefnisvæða hagkerfið. Kalifornía er fimmta stærsta hagkerfi heims og verður annað bandaríska ríkið á eftir Havaí til þess að skuldbinda sig til þess að framleiða raforku með vistvænum hætti, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Samkvæmt tölum orkunefndar Kaliforníu var um þriðjungur raforku sem seld var í ríkinu í fyrra framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Nýju lögin leggjast hins vegar illa í sum stærstu orkufyrirtæki landsins sem vara við því að þau muni hækka orkuverð til almennings. Umhverfisverndarsinnar hafa aftur á móti fagnað aðgerðunum.

Á sama tíma og Kalifornía tilkynnir um aðgerðir sínar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda ætlar ríkisstjórn Donalds Trump forseta enn að slaka á alríkisreglum. New York Times segir frá því að Umhverfisstofnun Bandaríkjanna ætli að auðvelda orkufyrirtækjum að losa metan út í andrúmsloftið. Áður hefur hún lagt fram tillögur um að veikja verulega reglur um takmarkanir á losun frá kolaorkuverum og bifreiðum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.