Innlent

#metoo kveikjan að aðgerðarhópi hjá ráðuneytinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá fundinum í Guðrúnartúni í gær.
Frá fundinum í Guðrúnartúni í gær.
Skipaður hefur verið aðgerðarhópur á vegum Velferðarráðuneytisins til að fylgja eftir aðgerðum á vinnumarkaði sem miða að því að koma í veg fyrir einelti, kynferðislegt og kynbundið áreiti og ofbeldi á vinnustöðum. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Hugmyndum, sem settar hafa verið fram á vinnufundum breiðs hóps úr atvinnulífinu, um úrbætur, s.s. fræðslu til fyrirtækja, heimasíðu með aðgengi að upplýsingum um málefnið og leiðbeiningar til stjórnenda um stefnumótun og aðgerðir gegn einelti og kynbundnu áreiti á vinnustöðum verður nú komið til aðgerðarhóps Velferðarráðuneytisins.

Hópurinn kom saman í gær og vann að útfærslum á hugmyndum sínum og mun hittast aftur í upphafi næsta árs til að meta hvernig til hefur tekist af hálfu þeirra vinnuhópa sem skipaðir hafa verið af opinberum aðilum og ýta á frekari aðgerðir ef ástæða er til.

Eftirtaldir aðilar skipa hópinn vegna #MeToo og krefjast aðgerða til að vinna gegn einelti og áreiti og vinnustöðum. Jafnréttisstofa, ASÍ, BSRB, BHM, KÍ, Samtök atvinnulífsins, Fjármálaráðuneytið, Félag forstöðumanna ríkisins, VIRK, Félagi kvenna í atvinnulífinu, Samband íslenskra sveitarfélaga, Bjarkarhlíð, Kvenréttindafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Félag mannauðsstjóra og Vinnueftirlitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×