Fótbolti

Hafa ekki unnið leik síðan þeir tryggðu sig inn á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku strákarnir fagna sæti á HM fyrir 337 dögum síðan,
Íslensku strákarnir fagna sæti á HM fyrir 337 dögum síðan, Vísir/Eyþór

Íslenska karlalandsliðið hefur ekki unnið leik með sínu aðalliði síðan í október í fyrra eða á kvöldinu sem strákarnir okkar tryggðu sér sæti á HM í fyrsta sinn.

Einu sigurleikir íslenska landsliðsins á þessum 337 dögum voru tveir leikir á móti Indónesíu í janúar síðastliðnum. Leikirnir við Indónesíu voru ekki spilaðir á alþjóðlegum leikdegi og því voru okkar bestu leikmenn ekki í boði.

Íslenska karlalandsliðið tryggði sig inn á HM með 2-0 sigri á Kósóvó 9. október 2017. Það var þriðji sigur íslenska liðsins í röð í undankeppni HM og sjötti sigur liðsins í síðustu sjö landsleikjum.

Nú er aftur á móti öldin önnur og liðið þarf að vinna sig út úr miklu áfalli í síðasta leik.

7 af síðustu 10 landsleikjum aðalliðsins hafa tapast og besti árangurinn á þessum rétt tæpa ári eru jafntefli á móti Argentínu, Gana og Katar.

Íslenska liðið hefur fengið á sig 25 mörk í þessum 10 leikjum eða 2,5 mörk að meðaltali. Það hafa aðeins liðið 36 mínútur á milli marka mótherjanna en á meðan hefur íslenska liðið „aðeins“ skorað á 100 mínútna fresti.

Íslenska landsliðið á ennfremur í hættu að tapa fjórða leik sínum í röð á móti Belgíu í kvöld. Liðið tapaði tveimur síðustu leikjum sínum á HM í Rússlandi í sumar og svo fyrsta leik sínum í Þjóðadeildinni um helgina.

Síðustu 11 landsleikir á alþjóðlegum leikdögum:
8. september 2018: 0-6 tap fyrir Sviss
26. júní 2018: 1-2 tap fyrir Króatíu
22. júní 2018: 0-2 tap fyrir Nígeríu
16. júní 2018: 1-1 jafntefli við Argentínu
7. júní 2018: 2-2 jafntefli við Gana
2. júní 2018: 2-3 tap fyrir Noregi
27. mars 2018: 1-3 tap fyrir Perú
23. mars 2018: 0-3 tap fyrir Mexíkó
14. nóvember 2017: 1-1 jafntefli við Katar
8. nóvember 2017: 1-2 tap fyrir Tékklandi
9. október 2017: 2-0 sigur á Kósóvó

Síðustu 10 leikir íslenska karlalandsliðsins á alþjóðlegum leikdögum:
(Leikir frá síðasta sigurleik)

0 sigrar
3 jafntefli
7 töp

9 mörk skoruð
25 mörk fengin á sig

-16 í markatölu
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.