Fótbolti

Markvörður Slóvaka skoraði sigurmarkið í uppbótartíma og gerði út um vonir Íslands

Anton Ingi Leifsson skrifar
Albert fagnar fyrra marki sínu í dag.
Albert fagnar fyrra marki sínu í dag. vísir/vilhelm

Draumur íslenska U21-árs landsliðsins um að komast í umspilið um laust sæti á EM U21 2019 er úr þeirra höndum eftir að liðið tapaði 3-2 gegn Slóvakíu í Vesturbænum.

Leikið var á Alvogen-vellinum í Vesturbæ Reykjavíkur í kvöld og voru Slóvakarnir sterkari framan af. Þeir fengu meðal annars vítaspyrnu sem Aron Snær Friðriksson varði.

Það voru hins vegar Íslendingar sem komust yfir. Albert Guðmundsson lék þá laglega á varnarmann og hamraði boltanum í nærhornið. Óverjandi fyrir markvörð Slóvaka og strákarnir yfir í hálfleik.

Ungu strákarnir okkar þurftu á sigri að halda til þess að halda baráttunni um umpilssæti vel á lífi en það dróst úr þeim vonum er Laszlo Benes skoraði með góðu skoti á 58. mínútu.

Fjörinu var heldur betur ekki lokið.     Slóvakarnir virtust vera að tryggja sér sigurinn með marki Tomás Vestenický í uppbótartím en svo var ekki.

Ísland fékk vítaspyrnu skömmu síðar eftir að Tryggvi Hrafn Haraldsson var tekinn niður. Albert fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi og flestir héldu að lokatölurnar urðu 2-2.

Slóvakarnir voru hins vegar ekki hættir. Þeir geystust upp og Aron Snær Friðriksson varði afar vel í horn. Upp úr horninu skoraði markvörður þeirra, Marek Rodák, sigurmark þeirra eftir að boltinn féll niður til hans í teignum.

Lokatölur ótrúlegur 3-2 sigur Slóvaka sem eru því enn á lífi í baráttunni um umspil á meðan íslenska liðið hefur ekki að neinu að keppa í síðustu tveimur leikjunum; gegn Spáni og Norður-Írlandi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.