Erlent

Trump segir yfirvöld „algjörlega, fullkomlega“ undirbúin undir "skrímslið“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hér má sjá Flórens, lengst til vinstri, en á eftir henni koma Ísak og Helena.
Hér má sjá Flórens, lengst til vinstri, en á eftir henni koma Ísak og Helena. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að yfirvöld þar í landi séu „algjörlega, fullkomlega“ undirbúin undir fellibylinn Flórens sem búist er við að skelli á austurströnd Bandaríkjanna. Ríkisstjóri Norður-Karólína segir fellibylinn vera „skrímsli“.

Fastlega er gert ráð fyrir því að Flórens gangi á land seint á fimmtudaginn en fellibylurinn hefur safnað krafti á leið sinni yfir Atlantshafið. Alls er búið að fyrirskipa 1,4 milljónum íbúa í Virginíu og Norður- og Suður-Karólínu að yfirgefa heimili sín.

Búist er við að Flórens fylgi gífurlegt úrhelli auk þess sem óttast er að sjór muni flæða upp á land en auk ríkjanna þriggja sem minnst var á hér fyrir ofan hefur verið lýst yfir neyðarástandi í Maryland og Washington DC, höfuðborg Bandaríkjanna.

Hér má sjá kort af áætlaðri slóð fellibylsins

„Þessi stormur er skrímsli,“ sagði Roy Cooper, ríkisstjóri Norður-Karólínu á blaðamannafundi í dag er hann hvatti þá sem búa við ströndina að flýja fellibylinn áður en hann næði landi. „Þetta er mjög hættulegur, lífshættulegur og sögulegur fellibylur“. 

Flórens telst nú vera fellibylur að styrkleika fjögur, en mest geta fellibylir náð styrkleika fimm. Vonir eru þó bundnar við að að fellibylurinn muni veikjast áður en hann nær landi. Þó er gert ráð fyrir að vindstyrkur geti náð allt að 60 metrum á sekúndu.

Hefur Trump heitið því að engu verðu til sparað til þess að bregðast við fellibylnum sem Trump sagði að væri bæði „ótrúlega stór og ótrúlega blautur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×