Erlent

„Borgarar, ekki glæpamenn“: Pútín segir Rússa hafa borið kennsl á mennina sakaða um Skripal-eitrunina

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimir Pútín, forseti Rússlands.
Vladimir Pútín, forseti Rússlands. Vísir/AP

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, segir að búið sé að bera kennsl á mennina sem Bretar hafa sakað um að eitra fyrir Sergei Skripal og dóttur hans Júlíu í mars. Forsetinn segir mennina ekki vera glæpamenn og þess í stað séu þeir almennir borgarar.

„Ég vonast til þess að þeir stígi fram og segi sína sögu. Það yrði best fyrir alla. Það er ekkert sérstakt hér, ekkert glæpsamlegt, ég fullyrði það. Við sjáum til í náinni framtíð,“ sagði Pútín í morgun samkvæmt BBC.

Lögreglan í Bretlandi segir mennina tvo hafa flogið til London frá Moskvu tveimur dögum fyrir árásina og þeir hafi notast við nöfnin Alexander Petrov og Ruslan Boshirov. Nöfnin eru þó talin vera dulnefni.

Degi fyrir árásina tóku þeir lest til Salisbury og náðust myndir af þeim nálægt heimili Skripal. Þann 4. mars fóru þeir sama ferðalag til Salisbury og náðust aftur myndir af þeim nálægt heimili Skripal. Lögreglan telur að þá hafi þeir sprautað taugaeitrinu Novichok á útidyr Skripal.

Vísir/AP

Skömmu seinna fóru þeir aftur til London og beint á Heathrow flugvöllinn og þaðan flugu þeir til Moskvu. Þar að auki segir lögreglan að leifar af Novichok hafi fundist á hótelherbergi þeirra.

Sjá einnig: Rússar reiðir yfir ásökunum Breta

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sagði þingmönnum að yfirvöld Bretlands telji mennina tvo vera útsendara GRU, leyniþjónustu herafla Rússlands, og að ljóst sé að ákvörðun um árásina hafi verið tekin á hæstu stigum stjórnvalda Rússlands. Það er, að ákvörðunin hafi verið tekin af Vladimir Pútín.

Rússar hafa ávallt neitað ásökununum og gefið fjölmargar útskýringar fyrir því hvernig taugaeitrinu Novichok, sem þróað var í Rússlandi á tímum Sovétríkjanna, hafi verið beitt gegn fyrrverandi rússneskum njósnara í Bretlandi.

Meðal annars hafa þeir sagt Breta hafa sviðsett árásina og sömuleiðis hafa þeir sagt árásina hafa verið gerða en að Bretar hafi sjálfir framkvæmt hana til að draga athygli frá úrsögn landsins úr Evrópusambandinu. Þá hafa þeir í senn sagt að taugaeitrið hafi komið frá Tékklandi, Slóvaíku, Svíþjóð, Bandaríkjunum eða að árásin hafi verið framin af duldum einkaaðila til að stofna til stríðs.


Tengdar fréttir

Segir Rússana vera útsendara GRU

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir tvo rússneska aðila sem sakaðir eru um að hafa eitrað fyrir Sergei Skripal og dóttur hans Júlíu með taugaeitrinu Novichok í mars vera starfsmenn leyniþjónustu herafla Rússlands,Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.