Erlent

Nick Carter úr Backstreet Boys ekki ákærður fyrir nauðgun

Samúel Karl Ólason skrifar
Nick Carter, annar frá vinstri, og hinir meðlimir Backstreet Boys á verðlaunahátíð MTV fyrr á árinu.
Nick Carter, annar frá vinstri, og hinir meðlimir Backstreet Boys á verðlaunahátíð MTV fyrr á árinu. Vísir/GETTY

Söngvarinn Nick Carter, sem gerði garðinn frægan með Backstreet Boys, verður ekki ákærður fyrir nauðgun sem hann hefur verið sakaður um. Söngkonan Melissa Schuman segir hann hafa nauðgað sér í íbúð hans í Santa Monica árið 2003 þegar þau voru að vinna saman að kvikmynd. Saksóknarar í Los Angeles segja meint brot hans vera fyrnd og urðu þau það árið 2013.

Schuman skrifaði blogfærslu fyrr á árinu þar sem hún sakaði Carter um að hafa nauðgað sér, en hún var átján ára gömul árið 2003 og söng í hljómsveitinni Dream.

Lögmaður Carter sagði, samkvæmt AP fréttaveitunni, að söngvarinn væri ánægður með niðurstöðuna. Hann hefði ávalt neitað þessum ásökunum og hefði verið sannfærður um að ekki væri tilefni til að ákæra hann.

Yfirvöld Kaliforníu felldu niður fyrningu kynferðisbrota árið 2016. Schuman segir það miður að það hafi ekki verið gert afturvirkt. Hún sagðist þó ánægð með að hafa sagt frá hinni meintu nauðgun.

„Að tjá mig um málið var það besta sem ég hefði getað gert fyrir mig og ég vonast til þess að það verði til þess að fleiri fórnarlömb telji sig geta stigið fram,“ sagði Schuman.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.