Handbolti

Ná Haukar loksins mála bæinn rauðan á eigin heimavelli?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haukamaðurinn Daníel Þór Ingason í átökum við FH-inga á síðustu leiktíð.
Haukamaðurinn Daníel Þór Ingason í átökum við FH-inga á síðustu leiktíð. Fréttablaðið/Anton

Fyrstu umferð Olís-deildar karla í handbolta lýkur í kvöld með tveimur leikjum þegar að Selfyssingar heimsækja ÍR í Austurbergið og erkifjendurnir Haukar og FH mætast í Schenker-höllinni að Ásvöllum.

Já, Hafnafjarðarslagur í fyrstu umferð til að bæta ofan á Reykjavíkurslag Fram og Vals sem endaði með 25-25 jafntefli og auðvitað Akureyrarslag KA og Akureyrar þar sem að þeir gulu unnu dramatískan eins marks sigur.

Fáir leikir bjóða upp á jafnmikla spennu og tilfinningar í íslenskum handbolta eins og leikir Hauka og FH en síðast þegar að liðin mættust rétt fyrir jól í fyrra vann FH á heimavelli sínum með flautumarki Óðins Þórs Ríkharðssonar.

FH vann báða leikina á móti Haukum í fyrra og er því svo sannarlega með montréttinn í bænum. FH vann einnig tvo af þremur deildarleikjum liðanna á þar síðustu leiktíð en liðið er með fínt tak á Haukum á Ásvöllum.

FH-ingar hafa ekki tapað deildarleik í Schenker-höllinni síðan 8. desember 2015 en eru síðan þá búnir að gera eitt jafntefli og vinna þrjá leiki í röð í greni erkifjenda sinna. Ekki amalegt og vafalítið eitthvað sem að Haukarnir vilja snúa við.

Ásgeir Örn Hallgrímsson er mættur til leiks hjá Haukum og hefur endurkomu sína í Olís-deildinni með Hafnafjarðarslag en Haukarnir litu best allra út á undirbúningstímabilinu. Þeir unnu bæði Ragnarsmótið og Hafnafjarðarmótið með fullu húsi stiga.

Leikur Hauka og FH verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD í kvöld en upphitun Seinni bylgjunnar frá Ásvöllum hefst klukkan 19.15. Leikurinn verður svo gerður upp í setti frá Ásvöllum að honum loknum og einnig farið yfir svipmyndir úr leik ÍR og Selfoss.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.